Sport

„Furðulega góður tími“ eftir krabbameinsmeðferð

Sindri Sverrisson skrifar
Jóhann Björn Sigurbjörnsson á spretti fyrir hönd Íslands á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi sumarið 2019.
Jóhann Björn Sigurbjörnsson á spretti fyrir hönd Íslands á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi sumarið 2019. mynd/ÍSÍ

„Ég ætla að ná toppstandi aftur en það tekur tíma,“ segir Skagfirðingurinn Jóhann Björn Sigurbjörnsson, einn fremsti spretthlaupari þjóðarinnar, í viðtali við RÚV. Hann sneri aftur til keppni um helgina eftir lyfjameðferð vegna eitlakrabbameins.

Jóhann Björn, sem er 26 ára gamall, var á meðal keppenda á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum í Laugardalshöll. Landsliðsmaðurinn hljóp á 7,07 sekúndum í undanrásum 60 metra hlaups og var í boðhlaupssveit UMSS í 4x400 metra boðhlaupi, eftir vel heppnaða lyfjameðferð í fyrra.

„Ég greindist sem sagt með krabbamein fyrir ári síðan og byrjaði í lyfjameðferð fyrir sirka ári síðan. Síðan gekk það allt upp og ég náði að byrja að æfa aðeins síðasta haust, rólega. Svo er ég að koma mér aftur í gang núna, og ákvað að keppa um helgina því það er svo gaman að keppa,“ sagði Jóhann Björn við RÚV eftir mótið.

„Ég hljóp bara undanrásirnar í 60 metrunum. Þetta var furðulega góður tími hjá mér, 7,07 sekúndur, en ég ákvað að sleppa úrslitunum bara til að passa mig því ég er ekki alveg í besta keppnisforminu núna,“ sagði Jóhann Björn sem á enn piltamet í 100 og 200 metra hlaupi. Hann hefur best hlaupið 60 metra hlaup innanhúss á 6,93 sekúndum.

Jóhann Björn keppti fyrir íslenska landsliðið á Smáþjóðaleikunum og í Evrópubikarnum sumarið 2019 og eins og fyrr segir stefnir hann á að komast smám saman í landsliðsform á nýjan leik.

„Næsta haust er ég að stefna á að byrja að æfa alveg eins og ég æfði áður. Núna er stefnan að æfa þrisvar í viku og bara koma sér í gang.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×