Fótbolti

Mikil­vægir sigrar hjá AGF og Al Arabi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Aron Einar nældi sér í gult spjald í mikilvægum sigri í dag.
Aron Einar nældi sér í gult spjald í mikilvægum sigri í dag. Simon Holmes/Getty Images

Jón Dagur Þorsteinsson lék allan leikinn er AGF vann 1-0 útisigur á meisturum Midtjylland í dönsku úrvalsdeildinni. Þá vann Íslendingalið Al Arabi mikilvægan 1-0 sigur á Qatar SC er liðin mættust í úrvalsdeildinni í Katar í dag.

Jón Dagur var á sínum stað í byrjunarliði AGF á meðan Mikael Anderson kom inn af varamannabekk Midtjylland þegar tíu mínútur lifðu leiks.  Patrick Mortensen skoraði eina mark leiksins strax á níundu mínútu. AGF komið 1-0 yfir snemma leiks og þar við sat einfaldlega.

Sigurinn einkar mikilvægur en AGF fer nú upp fyrir FC Kaupmannahöfn í 3. sæti deildarinnar. Jón Dagur og félagar með 36 stig, þremur minna en Midtjylland sem er í 2. sæti deildarinnar.

Al Arabi vann gríðar mikilvægan 1-0 sigur á Qatar SC í úrvalsdeildinni í Katar í dag. Segja má að leikurinn hafi verið mjög svipaður og leikur AGF.

Aðeins var eitt mark skorað og kom það einnig snemma leiks. Það gerði gamla brýnið Sebastian Soria strax á áttundu mínútu leiksins.

Landsliðsfyrirliði Íslands, Aron Einar Gunnarsson, lék allan leikinn í liði Al Arabi og nældi sér í gult spjald á 42. mínútu. Með sigrinum eru lærisveinar Heimis Hallgrímssonar komnir upp í 7. sæti með 26 stig eftir 18 leiki. Aðeins eru þrjú stig í Al Rayyan sem er í 3. sæti deildarinnar en það sæti gefur þátttökurétt í forkeppni Meistaradeildar Asíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×