Innlent

Látrabjarg friðlýst

Kjartan Kjartansson skrifar
Fjölskrúðugt fuglalíf er að finna í Látrabjargi á Vestfjörðum.
Fjölskrúðugt fuglalíf er að finna í Látrabjargi á Vestfjörðum. Vísir/Þórir

Umhverfisráðherra skrifaði undir friðlýsingu Látrabjargs, eins stærsta fuglabjargs Evrópu í dag. Markmið friðlýsingarinnar er sagt að vernda sérstætt og fjölbreytt lífríki svæðisins og búsvæði fugla.

Unnið hefur verið að friðlýsingu Látrabjargs á sunnanverðum Vestfjörðum frá því að Alþingi samþykkti þingsályktun um náttúruverndaráætlun 2004 til 2008 árið 2004. Hún varð að veruleika í dag þegar Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, skrifað undir hana að viðstöddum fulltrúum Bjargtanga, félags land- og sumarhúsaeigenda á Hvallátrum við Látrabjarg.

Í tilkynningu frá umhverfisráðuneytinu kemur fram að í Látrabjargi sé að finna fjölskrúðugt fuglalíf sem byggist meðal annars á fjölbreyttu fæðuframboði. Á svæðinu sé mesta sjófuglabyggð landsins, til að mynda stærsta þekkta álkubyggð í heimi. Fjölmargar tegundir fugla verpi á svæðinu, þar á meðal tegundir sem eru á válista, svo sem lundi og álka. Við Látrabjarg sé einnig að finna búsetu- og menningarminjar. Þá speglist jarðsaga Vestfjarða í bjarginu.

Ráðherra og fulltrúar Bjargtanga skrifuðu einnig undir viljayfirlýsingu um málefni friðlýsingar Látrabjargs og þróunar svæðisins til framtíðar.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, (lengst til vinstri), með fulltrúum Bjargtanga, félags land- og sumarhúsaeigenda á Hvallátrum í dag.Umhverfisráðuneytið


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×