Bíó og sjónvarp

Bachelor-stjórnandi dregur sig í hlé í kjölfar gagnrýni

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Harrison mun ekki koma meira að Bachelor í bili.
Harrison mun ekki koma meira að Bachelor í bili. Rodin Eckenroth/WireImage

Chris Harrison, stjórnandi hinna vinsælu raunveruleikasjónvarpsþátta The Bachelor, hefur ákveðið að stíga tímabundið til hliðar. Ástæðan er sú að hann hefur verið harðlega gagnrýndur eftir að hann varði Rachael Kirkconnell, einn keppanda þáttanna, sem sökuð hefur verið um kyþáttafordóma.

Nýlega skutust myndir af henni frá árinu 2018 í dagsljósið, en þar sést hún stödd í háskólapartíi þar sem þemað virðist hafa verið „plantekra í gömlu Suðurríkjunum.“ Hefur Kirkconnell verið sökuð um kynþáttafordóma og ónærgætni gagnvart svörtu fólki, en svartir þrælar voru stór hluti íbúafjölda Suðurríkjanna á því tímabili sem partíinu virðist hafa verið ætlað að fanga. Kirkconnell hefur síðan beðist afsökunar.

Nú hefur Harrison einnig gert það, eftir að hann eyddi dágóðum tíma sem gestur í þættinum Extra í að ræða um málið. Þar gerði Harrison lítið úr málinu og taldi ósanngjarnt að gagnrýna Kirkconnell, þar sem myndin hefði verið tekin í fortíðinni, eins og reyndar allar ljósmyndir.

Harrison hefur nú beðist afsökunar og tilkynnt að hann muni tímabundið stíga til hliðar frá þáttunum. Í afsökunarbeiðni sem hann birtir á Instagram segir hann að síðustu dögum hafi hann varið í að hlusta á fólk sem hann hafði sært. Ekki liggur fyrir hversu lengi Harrison hyggst halda sig til hlés.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.