Erlent

Um 100 börn á viku lögð inn með al­var­legan bólgu­sjúk­dóm í kjöl­far Co­vid-19

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Áætlað er að fjöldi barna sem liggja á sjúkrahúsum með PIMS muni ná hámarki á mánudag.
Áætlað er að fjöldi barna sem liggja á sjúkrahúsum með PIMS muni ná hámarki á mánudag. epa/Andy Rain

Allt að 100 börn eru nú lögð inn á sjúkrahús í Bretlandi í viku hverri með sjaldgæfan bólgusjúkdóm í kjölfar Covid-19. Sjúkdómurinn er mun tíðari meðal minnihlutahópa, sem má mögulega rekja til erfða og/eða bágra aðstæðna.

Bólgusjúkdómurinn kallast á ensku PIMS, sem stendur fyrir „paediatric inflammatory multi-system syndrome“. Í fyrri bylgju faraldursins í Bretlandi greindust allt að 30 börn á viku með sjúkdóminn en fjölgunin nú helst í hendur við fjölgun Covid-19 greininga meðal fullorðinna.

Það er að segja, þrátt fyrir að fleiri börn séu að greinast með PIMS í dag er fjöldinn hlutfallslega sá sami ef miðað er við heildarfjölda Covid-19 greininga.

Það veldur hins vegar áhyggjum hversu hátt hlutfall þeirra barna sem greinast með PIMS tilheyra minnihlutahópum, eða 75%. Eins og fyrr segir kunna erfðir að eiga hlut að máli en þá hefur verið bent á að þessi börn tilheyra fjölskyldum sem eiga erfitt með að gera ráðstafanir til að forðast Covid-19 smit, búa þétt og oft margir saman.

Tvö börn á Bretlandseyjum látist vegna PIMS

Þegar bólgusjúkdómurinn kom fyrst fram var talið að mögulega væri um að ræða svokallaðan Kawasaki-sjúkdóm, sem leggst helst á börn og ungabörn. Nú er hins vegar komið í ljós að um er að ræða fylgifisk Covid-19, sem kemur hins vegar ekki alltaf fram fyrr en um mánuði eftir Covid-19 veikindi.

Samkvæmt Guardian er talið að eitt af hverjum 5.000 börnum sem greinast með Covid-19 fái PIMS í kjölfarið en helstu einkenni eru útbrot, hiti, hættulega lágur blóðþrýstingur og kviðvandamál.

Í alvarlegum tilvikum koma fram einkenni sem líkjast einkennum eiturlosts og sýklasóttar en þess ber að geta að þessi tilfelli eru afar fá. Talið er að á Bretlandseyjum hafi tvö börn látist vegna PIMS.

Meðalaldur þeirra barna sem eru greind með PIMS er ellefu ára. Um 78% voru heilsuhraust áður en þau greindust með Covid-19. Hjá fámennum hóp virðist PIMS hafa áhrif á heilann og í einhverjum tilvikum hjartað.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.