Innlent

Alþingi hætti að nota kerfið - fjársýslustjóri segir Kastljós misskilja

Fjársýslustjóri ríkisins, Gunnar H. Hall, vill meina að umfjöllun Kastljóss um bókhaldskerfi ríkisins, Oracle, sé á misskilningi byggð. Í viðtali í Kastljósi í kvöld sagði hann að ef dæmið væri að ríkið hefði keypt flugvél fyrir milljarða, en síðan keypt bensín og fleira og rekið flugvélina fyrir 300 milljónir á ári, þá myndi fáum detta í hug að segja að kaupverð flugvélarinnar hefði verið þrír milljarða tíu árum síðar.

Fjársýsla ríkisins sendi frá sér yfirlýsingu fyrr í kvöld þar sem þessi sjónarmið komu fram.

„Ég neita því ekki að á mánudagskvöldið, þegar ég sest niður til að horfa á þáttinn [kastljós] og þar kom fram að 160 milljónir hefðu verið veittar í verkefnið, og að við hefðum farið 25falt fram úr heimildum, það kom mér verulega á óvart," sagði Gunnar sem segir að umfjöllun Kastljós um kerfið í upphafi hafi komið sér á óvart.

Í Kastljósi var einnig rætt við skrifstofustjóra Alþingis, Helga Bernódusson, sem sagði kerfið hafa nýst þinginu illa og verið að auki kostnaðarsamt. Það hafi orðið til þess að Alþingi þurfti að breyta um tölvukerfi.

Gunnar segir að kerfið hafi virkað vel til þess að draga fram upplýsingar fyrir ríkið og bendir einnig á að það hafi strax verið vitað að kerfið myndi nýtast stofnunum, sem eru misstórar, á misjafnan hátt. Þannig séu til ríkisstofnanir með einum einstaklingi upp í fimm þúsund manna vinnustaði, samanber Landspítalann.

Þá sagði Gunnar einnig að dæmið um tvígreiðslu sem Kastljós fjallaði um í gær, hafi líklegast verið mannleg mistök.

Hægt er að lesa viðtal við skrifstofustjóra Alþingis á vef RÚV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×