Innlent

„Hómófóbía á sér margar birtingarmyndir“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Grétar Einarsson hjá Hinsegin í Kristi segist ekki hafa orðið var við hómófóbíu innan Þjóðkirkjunnar persónulega.
Grétar Einarsson hjá Hinsegin í Kristi segist ekki hafa orðið var við hómófóbíu innan Þjóðkirkjunnar persónulega.
Á föstudag er alþjóðlegur baráttudagur gegn hómófóbíu og transfóbíu og af því tilefni verður haldin bænastund í Guðríðarkirkju undir yfirskriftinni „Ótti er ekki í elskunni“.

Það er Hinsegin í Kristi, samkirkjulegur trúarhópur LGBTT-fólks (Lesbian, Gay, Bisexual, Transvestite, Transsexual), sem stendur fyrir bænastundinni ásamt Sigríði Guðmarsdóttur sóknarpresti.

Í tilkynningu frá trúarhópnum segir: „Hómófóbía og transfóbía er ekki bundin við trúfélög en það má þó segja að sýnileiki hennar sé oft á tíðum hvað fyrirferðamestur þar. Víða er kristin trú misnotuð í þeim tilgangi að verja aðgerðir gegn mannréttindum og mannlegri reisn og tilvist LGBTT-fólks um allan heim og oft á tíðum til að verja andlegt og líkamlegt ofbeldi, útskúfun, einangrun og mannfyrirlitningu.“

Grétar Einarsson hjá Hinsegin í Kristi segist ekki hafa orðið var við hómófóbíu innan Þjóðkirkjunnar persónulega.

„Þjóðkirkjan hefur breyst gífurlega mikið á mjög stuttum tíma. Við erum mjög vel stödd hér á landi varðandi löggjöf og mikið af Þjóðkirkjufólki er mjög umburðarlynt í garð okkar. Ég myndi því segja að kirkjan væri ekki hómófóbískari en samfélagið sem slíkt þó auðvitað séu deildar meiningar um það.“

Grétar segir hómófóbíu eiga sér margar birtingarmyndir og vera víðtækari í samfélaginu en margir telja.

„Það má til dæmis rifja upp ýmis viðbrögð á netinu varðandi hælisumsókn Afríkumannsins um daginn, sem voru í raun og veru hómófóbísk.“

Bænastundin hefst klukkan 20:15 á föstudag og eru allir velkomnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×