Innlent

Aldraður maður fékk ekki laust elliheimilispláss - dvaldi fjarri heimabyggð

Kristinn Jónasson Bæjarstjóri Snæfellsbæjar segir fáránlegt að aldraður maður geti ekki fengið þjónustu í heimabyggð sinni þar sem aðstaðan er til staðar.
Kristinn Jónasson Bæjarstjóri Snæfellsbæjar segir fáránlegt að aldraður maður geti ekki fengið þjónustu í heimabyggð sinni þar sem aðstaðan er til staðar.
Aldraður maður úr Snæfellsbæ fékk ekki pláss á hjúkrunarheimili í bænum þrátt fyrir að tvö rými standi auð og þurfti því að dveljast á hjúkrunarheimili í Búðardal.

„Þetta er fáránlegt,“ segir Kristinn Jónasson bæjarstjóri. „Það er afar sérstakt á 21. öldinni að hægt sé að færa einstaklinga milli landshluta en ekki fjármunina. Fjölskylda hans er í heimabyggðinni og á ekki hægt um vik með að ferðast inn í Búðardal til þess að heimsækja hann.“

Kristinn segir þetta undarlegt í ljósi þess að í bæjarfélaginu standi tvö hjúkrunarrými auð vegna þess að ráðuneytið veitir ekki leyfi til notkunar þeirra. „Við fáum ekki að nýta rými sem eru 100 milljóna króna virði.“ Hann segir ekki skynsamlegt að byggja rými sem ekki eru ætluð til notkunar. „Þetta er ekki góð nýting á almannafé.“

Mál mannsins var rætt á bæjarráðsfundi í byrjun júlí. „Bæjarráð Snæfellsbæjar harmar þá afstöðu Heilbrigðisráðuneytisins að hafa ekki tekið af skarið í þessu máli og leyst það mannsæmandi hátt,“ segir í fundargerð bæjarráðs. Var þá tekin sú ákvörðun að flytja manninn til Snæfellsbæjar og átti að fella kostnaðinn á bæjarfélagið. „Ljóst er að kostnaður vegna þessa mun alfarið falla á Snæfellsbæ, en bæjarráð telur að það sé ekkert annað í stöðunni, þar sem lítill sem enginn vilji virðist vera af hálfu ráðuneytisins og Heilbrigðisstofnunar Vesturlands til að leysa þetta mál á viðunandi hátt,“ kemur fram í fyrrnefndri fundargerð. Þó losnaði pláss á dvalarheimilinu Jaðar í Ólafsvík áður en til kostnaðarins kom.

„Sem betur fer leystist þetta að lokum en þetta var leiðinlegt mál,“ segir Kristinn. „Hreppaflutningar eiga ekki að vera við lýði á Íslandi,“ segir hann. „Ef tækifæri er til eru það sjálfsögð réttindi að fólk fái þjónustu í sinni heimabyggð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×