Innlent

Hvasst á landinu í dag

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hvassast verður við suðurströndina.
Hvassast verður við suðurströndina. Vísir/vilhelm

Áfram verður hvasst á landinu í dag og má búast við vindi 10-20 m/s. Hvassast verður við suðurströndina, einkum í Öræfum, þar sem vindstrengir gætu orðið allt að 25 m/s, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings. Bjart verður víða á landinu en einhver éljagangur verður þó viðloðandi á Austur- og Suðausturlandi. Hiti víðast hvar við frostmark.

Í nótt snýst síðan í stífa norðaustanátt með snjókomu eða slyddu norðaustantil í fyrramálið. Vindur verður hægari í öðrum landshlutum og þurrt að mestu fyrir hádegi á morgun. Síðdegis á morgun verður aftur á móti él eða snjókoma á öllu landinu.

Von er á hægum suðlægum áttum það sem eftir er vikunnar, einhver él um landið sunnanvert og köldu veðri.

Þá er vetrarfærð í öllum landshlutum í dag. Nokkuð stífur vindur og hviðótt á Kjalarnesi og við Hafnarfjall í morgun. Sérstaklega hvasst var inni í Hvalfirði, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.

Lokað er um Fjarðarheiði þar sem er mjög snjóþungt. Mokstur mun taka langan tíma og telur Vegagerðin ekki líklegt að vegurinn opnist fyrir hádegi. Einnig er lokað Mývatns- og Möðrudalsöræfi.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag: Austan 8-15 m/s, en hægari síðdegis. Slydda eða snjókoma á norðaustur og austurlandi og einnig um tíma suðvestanlands, annars úrkomulítið. Hiti kringum frostmark.

Á miðvikudag: Sunnan 3-8 m/s og dálítil él á sunnanverðu landinu, en bjartviðri norðanlands. Frost 0 til 8 stig, kaldast norðan heiða.

Á fimmtudag: Norðaustan 8-13 m/s og snjókoma á Vestfjörðum, annars hægari og sums staðar él við ströndina. Frost 0 til 8 stig, en kaldara í innsveitum um kvöldið.

Á föstudag: Norðlæg átt og dálítil él norðanlands, en léttskýjað sunnantil á landinu. Kalt í veðri.

Á laugardag: Austlæg átt, allhvöss með suðurströndinni, dálítil snjókoma eða slydda suðaustantil en annars þurrt. Áfram kalt í veðri.

Á sunnudag: Útlit fyrir norðaustlæga átt með éljum norðan- og austantil á landinu en annars bjartviðri.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.