Innlent

Samfylkingarkona notuð í auglýsingu Framsóknar

Valur Grettisson skrifar
Auglýsing Framsóknar.
Auglýsing Framsóknar.

„Þetta er virðingaleysi og skeytingaleysi og í raun vandræðalegt klúður," segir Marsibil Sæmundsdóttir, varaborgarfulltrúi, en ef glöggir menn skoða nýjustu kosningaauglýsingar Framsóknarflokksins, þá má sjá hana glaðbeitta undir slagorðinu: „Frumkvæði fyrir okkur öll."





Marsibil er við hægra megin við orðið „öll“.

Um er að ræða auglýsingu sem birtist í Fréttablaðinu í gær og svo aftur í Morgunblaðinu í dag. Auglýsingin er samansett af mörgum einstaklingum úr öllum áttum og myndar nokkurskonar mósaík. Í miðju auglýsingarinnar er slagorð flokksins, þar við hliðina á, helstu frambjóðendur flokksins - og svo Marsibil.

Skemmst er frá því að segja að Marsibil yfirgaf Framsóknarflokkinn á síðasta ári, en hún hafði verið flokksbundinn varaborgarfulltrúi flokksins um nokkura ára skeið. Þegar Framsóknarflokkurinn tók aftur upp samstarf við Sjálfstæðisflokkinn á síðasta ári í borgarstjórn þá var Marsibil nóg boðið, og hún yfirgaf flokkinn.

Nú, tæpu ári síðar, þá dúkkar hún upp á ný undir formerkjum flokksins í auglýsingunni.

„Það er fullt af fólki búið að hafa samband við mig út af þessu, fólk veltir því fyrir sér hvort ég sé kominn aftur í Framsókn," segir Marsibil hneyksluð og áréttar í eitt skipti fyrir öll; hún er flokksbundin Samfylkingunni.

„Ég hringdi í gær í tengil innan Framsóknarflokksins og benti þeim á þetta. Mér var lofað bót og betrun," segir Marsbil en árangurinn varð þó ekki betri en svo að auglýsingin birtist aftur daginn eftir, nú í Morgunblaðinu.

„Þetta er bara algjörlega pointless og fáránlegt," segir Marsibil sem er ekki skemmt yfir auglýsingaklúðri Framsóknaflokksins sem virðist skreyta sig með stolnum flokksfjöðrum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×