Lífið

Nýjar sögur frá hinstu ferð Dettifoss

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Bókarskrifin voru skemmtileg á heildina litið, þrátt fyrir örlagaþrungið efni,“ segir Davíð Logi.
„Bókarskrifin voru skemmtileg á heildina litið, þrátt fyrir örlagaþrungið efni,“ segir Davíð Logi. Vísir/Ernir
Ég var að lesa upp á Hrafnistu. Mér finnst skemmtilegast að lesa fyrir gamla fólkið, það man svo langt aftur, og það spinnast oft áhugaverðar samræður,“ segir Davíð Logi Sigurðsson sagnfræðingur þegar forvitnast er um nýja bók hans, Ljósin á Dettifossi – örlagasaga. Þar segir hann frá einu af síðustu skipunum sem Þjóðverjar sökktu í seinni heimsstyrjöldinni og líka lífi afa síns, Davíðs Gíslasonar stýrimanns og fólksins hans.

Fyrsti kaflinn fjallar einmitt um það þegar fimm systur, dætur Davíðs, liggja í glugga heima á Njarðargötu og fylgjast með ljósunum á Dettifossi þar sem hann er að leggja upp frá Reykjavík til New York og siglir fyrir Engeyna. Þær vita að myrkrið er mikilvægur bandamaður íslensku kaupskipanna og að það er í verkahring föður þeirra að slökkva ljósin þegar út á hafið er komið, vegna hættunnar frá kafbátum.

„Ég nýtti mér frásagnir móður minnar og systra hennar en þær voru náttúrlega börn þegar faðir þeirra fórst og það eru 70 ár liðin. Auðvitað verður sagnfræðingur að taka slíkum frásögnum með hæfilegum fyrirvara en líka lifa sig inn í aðstæðurnar og nota það sem hann telur sig geta staðið föstum fótum á. Ég hef náð ýmsum sagnabrotum frá fólki og svo hafa birst viðtöl við fólk gegnum tíðina um þessi ár. Sjópróf um atburðinn sjálfan, þegar Dettifossi var sökkt á heimleið frá Ameríku og fólkið barðist fyrir lífi sínu í sjónum, eru líka sterk heimild.“

Meðal þeirra sem Davíð Logi kveðst hafa komist í samband við vegna bókarinnar er Elísabet Guðmundsdóttir, sem átti unnusta um borð í Dettifossi, Hlöðver Ásbjörnsson.

„Síðustu stundir Hlöðvers voru átakanlegar því hann fótbrotnaði niðri í skipinu þegar sprengingin varð, tókst að komast upp á þilfar en reyndist engu að síður feigur.“ lýsir hann og bætir við: „Það var sérlega gefandi að komast í samband við Elísabetu, hún er viðræðugóð kona. Það er líka svo margt sem fólk fékk að reyna á þeim árum sem bókin nær yfir. Það var annar tími en okkar og allt aðrar aðstæður.“

Davíð Logi segir hugmyndina að bókinni hafa vaknað hjá honum fyrir tveimur og hálfu ári, síðan hafi hún tekið á sig mynd en vissulega reynst meiri heimildarvinna en hann sá fyrir í byrjun.

„Skrifin voru skemmtileg á heildina litið þó efnið sé örlagaþrungið. Þegar maður finnur einhverja heimild sem manni finnst sérstaklega áhugaverð, þá hoppar maður hæð sína. Eins og í sumar þegar í hendur mínar datt bunki af plöggum sem amma mín hafði komið vel fyrir í íbúðinni sinni. Þegar hún dó fyrir 20 árum hafði ein dóttirin tekið bunkann en var svo kannski búin að gleyma að hann væri til. Aftan á bókinni minni er skírteini með mynd af afa. Það var í þessum bunka.“

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 23. desember 2016.

Kaflabrot úr Ljósin á Dettifossi - örlagasaga

Klukkan er tuttugu og níu mínútur gengin í níu að morgni miðvikudagsins 21. febrúar 1945



Akkeri hafði verið létt um kl. 4:20 í Belfast og rétt eftir fimm hafði skipið yfirgefið höfnina, eða fyrir um þremur og hálfri klukkustund. Skipið er nú um 25 sjómílur í réttvísandi norður af austri frá Belfast og hefur siglingin verið tíðindalítil til þessa. Veður er sæmilegt, fremur sjólítið. Fylgdarskipin eru öll í næsta nágrenni, þrjú talsins, auk hinna flutningaskipanna tveggja sem fylgja Dettifossi. Leiguskip Eimskipafélagsins, Yemassee, er aðeins í seilingarfjarlægð frá Dettifossi.

Stefnan er til Loch Ewe í Skotlandi og svo þaðan heim til Íslands



Davíð er í rólegheitum á rabbi við Boga Þorsteinsson, annan loftskeytamann. Bogi hefur að beiðni Davíðs nýlokið við að skiptast á ljósmorsi við eitt fylgdarskipa Dettifoss, vopnaðan breskan togara. Bogi sér útundan sér hvar Valdimar Einarsson, fyrsti loftskeytamaður, er að koma út úr dyrunum á matsal yfirmanna og á leiðinni til að leysa hann af hólmi.

Ólafur Tómasson hefur á sama tíma nýlokið við morgunverð sinn, lítur á klukku sína þar sem hann leggur af stað úr borðsal yfirmanna og upp í brú. Klukkuna vantar eina mínútu í hálfníu. Hann veit að það mun ekki taka hann nema hálfa mínútu að komast upp í brú. Til sjós fær enginn verðlaun fyrir að mæta of snemma en menn eiga heldur alls ekki að mæta of seint. Nú er tímabært fyrir hann að taka fetið upp í brú.

Dettifoss, skip Eimskipafélags Íslands, í erlendri höfn.
Davíð sýnir enn ekki á sér neitt fararsnið þó að sjálfsagt verði hann því feginn að sjá Ólaf koma að leysa sig af.

Það verður aldrei.

Vaktmaður um borð í U-1064 hafði ræst Schneidewind eldsnemma þegar hlustunartól kafbátsins höfðu numið siglingu hinnar litlu skipalestar á leið frá Belfast. Skipherrann var fljótur að átta sig á að hér var engin stórkostleg veiði í boði. Lítil skip eins og Dettifoss og Yemmassee voru á mörkum þess að dýrmætu tundurskeyti væri eyðandi á þau. En þriðja skipið er öllu stærra, það er norskt kolaskip, og eftir bið dögum saman á þessum hættulegu slóðum er Schneidewind áfjáður í að sanna getu sína, fyrir sjálfum sér og áhöfn sinni, og fyrir Dönitz flotaforingja sem hefur treyst honum fyrir þessu verkefni.

Hvað fer um huga Davíðs Gíslasonar stýrimanns á þessari stundu – augnabliki áður en þýski kafbáturinn skýtur tundurskeyti sínu, á þessum allra síðustu sekúndum sem hann hefur áður en öllu er snúið á hvolf?

Kannski er það svo, að sjómanni sem siglt hefur heila heimsstyrjöld og séð tugi skipa skotin niður, kemur ekki á óvart þegar röðin kemur loks að honum. Kannski segir líka reynslan og þjálfunin til sín á ögurstundu á hafinu. Í öllu falli virðist ekki vera nein angist í rödd Davíðs þegar hann kallar skyndilega: Þarna kemur það!






Fleiri fréttir

Sjá meira


×