Innlent

Yfirlýsing frá Nóa Síríus: Fjárkúgunartilraunin var viðvaningsleg

Haraldur Guðmundsson skrifar
Stjórnendur Nóa Síríusar leituðu til lögreglunnar sem tókst að hafa hendur í hári mannanna.
Stjórnendur Nóa Síríusar leituðu til lögreglunnar sem tókst að hafa hendur í hári mannanna. Mynd/Stefán Karlsson
Stjórnendur Nóa Síríusar staðfesta að tilraun hafi verið gerð til að kúga fé út úr fyrirtækinu.  Í fréttatilkynningu sem þeir sendu frá sér segir að málið sé mannlegur harmleikur þar sem ónefndir aðilar hafi hótað að valda fyrirtækinu tjóni nema greidd væri tiltekin upphæð.

„Tilraunin var viðvaningsleg og aldrei var nein hætta á ferðum. Háttsemi sem þessi, hversu klaufaleg sem hún kann að vera, er þó algjörlega óviðunandi og stjórnendur Nóa Síríusar leituðu umsvifalaust til lögreglunnar sem tókst að hafa hendur í hári mannanna,“ segir í tilkynningu fyrirtækisins.

Vísir.is greindi frá því í morgun að ríkissaksóknari hefði fellt niður mál á hendur Sigurði Inga Þórðarsyni fyrir tilraun til að kúga fé út úr Nóa Síríusi í lok janúar og byrjun febrúar 2012 . Sigurður, sem einnig hefur verið kallaður Siggi hakkari, komst í sviðsljósið fyrr á þessu ári þegar í ljós kom að bandaríska alríkislögreglan, FBI, hafði yfirheyrt vegna starfa hans fyrir Wikileaks.

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, staðfesti við fréttastofu í morgun að málið gegn Sigurði hafi verið látið niður falla. Hann sagði þá að tveir aðrir aðilar séu taldir tengjast málinu, en vildi ekki tjá sig nánar um það að svo stöddu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×