Innlent

Leigumarkaðurinn að skána

Ástandið á leigumarkaðinum hefur batnað undanfarin ár að mati nefndar á vegum Félagsmálaráðherra. Aðsókn hefur þó sjaldan eða aldrei verið meiri í félagslegar íbúðir á vegum borgarinnar. Nefnd félagsmálaráðherra kannaði leigumarkaðinn í fyrra og kemst að þeirri niðurstöðu að ástandið hafi batnað til muna, framboð á leiguíbúðum hafi aldrei verið meira og nýir leigusalar hafi komið inn á markaðinn. Innleiðing húsaleigubóta um miðjan síðasta áratug og að þær urðu skattfrjálsar árið 2001 hafi skipt sköpum. Þá hafi leigutekjur verið felldar undir fjármagnstekjuskatt en þær voru áður skattlagðar sem launatekjur. Sérstakar húsaleigubætur Reykjavíkurborgar hafi einnig mikið að segja en þeim er ætlað að aðstoða þá sem bíða eftir félagslegu húsnæði. Bent er á að ýmsar breytingar á þessu ári séu líklegar til að gera gott betra, mikið af íbúðarhúsnæði sé í smíðum og nýjar lánareglur, vaxtalækkun og almennar breytingar á húsnæðismarkaði auðveldi fólki að kaupa eigið húsnæði. Í Gallup könnun á leigjendum kemur í ljós að meirihluti þeirra er yngri en 35 ára, kvenkyns og búsettur á höfuðborgarsvæðinu, 17% þeirra eru með börn á framfæri og rétt rúmur helmingur hefur lokið framhaldsnámi eða háskólanámi. Tæpur helmingur segist ekki eiga annarra kosta völ en að leigja og fjórðungur átti erfitt með að finna húsnæði. Meðalleiga er um fimmtíu þúsund krónur fyrir 80 fermetra húsnæði, sem er miklu lægra en reynsla margra leigumiðlana og félagasamtaka í borginni gefur til kynna. Gallup setur þó ýmsa fyrirvara við niðurstöðuna, til að mynda þá að erfitt eða ógerlegt hafi verið að ná til þeirra sem búi við verstu félagslegu aðstæðurnar. Eftirspurnin eftir félagslegu húsnæði hefur í raun vaxið stöðugt undanfarin ár. Nefndin telur koma til greina að veita sérstaka stofnstyrki til byggingar leiguíbúða fyrir sérstaka hópa, svo sem aldraða, öryrkja, námsmenn eða einstæða foreldra sem búa við erfiðar aðstæður og hafa tekjur eða eiga eignir innan tilskilinna marka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×