Erlent

Færri komust yfir en vildu

Reynt að þröngva sér á áfangastað. Mikil örtröð myndaðist við landamærin að Egyptalandi þegar þau voru opnuð í fyrsta sinn síðan í sumar.
Reynt að þröngva sér á áfangastað. Mikil örtröð myndaðist við landamærin að Egyptalandi þegar þau voru opnuð í fyrsta sinn síðan í sumar.

Rúmlega 1500 manns frá Gasasvæðinu flykktust yfir landamærin til Egyptalands í gær án þess að þurfa að fara í gegnum öryggisstöðvar Ísraela. Palestínumenn ráða nú yfir landamærastöðinni í Rafah í fyrsta sinn síðan Ísraelar hertóku svæðið fyrir 38 árum. Landamærin hafa verið lokuð síðan Ísraelar yfirgáfu Gasasvæðið í sumar og komust færri yfir þau en vildu við opnunina í gær.

Voru landamærin aðeins opin í fjórar klukkustundir. Fleiri breytingar eru framundan fyrir Palestínumenn því um miðjan næsta mánuð fá þeir leyfi til að ferðast á milli Vesturbakkans og Gasasvæðisins í fyrsta sinn í fimm ár. Fyrst um sinn þurfa þeir þó að ferðast í rútum í fylgd Ísraela.

Bandaríkjamenn hafa einnig hvatt Ísraela til að ná samkomulagi við Palestínumenn um að opna alþjóðlega flugvöllinn í Gasaborg á nýjan leik. Breytingarnar koma á góðum tíma fyrir Mahmoud Abbas, leiðtoga Palestínu, því þingkosningar í landinu eru fyrirhugaðar þann 25. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×