Innlent

Fjöldi erlendra ríkisborgara á Íslandi hefur þrefaldast á áratug

MYND/Kristín

Fjöldi erlendra ríkisborgara með lögheimili á Íslandi hefur þrefaldast undanfarinn áratug. Á Austurlandi eru tæplega átján prósent íbúa með erlent ríkisfang. Þetta kemur fram í nýjustu tölum frá Hagstofu Íslands og miðast við 31. desember síðastliðinn. Þá bjuggu hér á landi tæplega fjórtán þúsund erlendir ríkisborgarar af hundrað tuttugu og tveimur þjóðernum. Langflestir þeirra eru Pólverjar en þar á eftir koma Danir, Þjóðverjar og Filippseyingar.

Þessi hópur er um 4,6% landsmanna en árið 2004 var fjöldinn einu prósenti lægri. Ef hins vegar er litið aftur til ársins 1996 kemur í ljós að hlutfall erlendra ríkisborgara hérlendis þá var nærri þrefalt lægra en nú. Aukningin hvað þetta varðar hefur verið gríðarleg undanfarin ár samanborið við áratugina þar á undan.

Í Noregi er hlutfallið það sama og hér á landi, eða 4,6%, en ívið hærra í Danmörku, þar sem það er 4,9%, og Svíþjóð þar sem hlutfall erlendra ríkisborgara er 5,3%.

Áberandi munur er á hlut erlendra ríkisborgara eftir landssvæðum. Á Austurlandi er hlutfallið langhæst, eða 17,6%, sem vitanlega má rekja til stóriðjuframkvæmdanna þar. Þar á eftir koma Vestfirðir með rúm sex prósent. Lægst var hlutfallið á Norðurlandi eystra, eða 2,3%, en þar fyrir ofan er Norðurland vestra og höfuðborgarsvæðið utan Reykjavíkur.

Þá vekur athygli í tölum Hagstofunnar að á sama tíma og hlutfallslegur fjöldi erlendra ríkisborgara er áberandi hæstur á Austurlandi, þá hefur íbúum með íslenskt ríkisfang fækkað í landshlutanum.

Sjá nánar hér.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×