Innlent

Fyrsta skrefið í átt að ókeypis skólamáltíðum

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Gjald fyrir mat í skólum lækkar um þriðjung.
Gjald fyrir mat í skólum lækkar um þriðjung. Fréttablaðið/Vilhelm
Gjald sem greitt er fyrir hádegismat barna í grunnskólum og leikskólum Fjarðabyggðar verður lækkað um þriðjung frá 1. október samkvæmt ákvörðun bæjarráðs.

Fæðisgjald í grunnskólum verður þannig 300 krónur á dag í stað 450 króna og hádegismatur í leikskóla mun kosta 2.937 krónur á mánuði í staðinn fyrir 4.406 krónur. „Þetta er fyrsti liður í átt að gjaldfrjálsum skólamáltíðum hjá Fjarðabyggð,“ segir í fundargerðinni.

Í sameiginlegri bókun fulltrúa meirihlutans og fulltrúa Miðflokksins segir að þeir telji það mikið jafnréttismál að Fjarðabyggð bjóði upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir leik- og grunnskólabarna. „Með því munum við létta undir með barnafjölskyldum ásamt því að standast 2. grein í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um jafnræði og bann við mismunun,“ segir í bókuninni.

Kostnaður við þetta nemur 7 milljónum króna á árinu og gerður verður viðauki við fjárhagsáætlun vegna þessa. Fulltrúi Sjálfstæðisflokks sat hjá við afgreiðslu málsins.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.