Erlent

Fresta þjóðaratkvæðagreiðslu

Fastlega er búist við að Bretar muni slá því á frest að ákveða hvenær eða hvort þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram í landinu um stjórnarskrársáttmála Evrópusambandsins. Enda þótt leiðtogar ESB hafi hvatt þau aðildarríki sem eftir eiga að staðfesta sáttmálann til að halda sínu striki ríkir svo mikil óvissa um stöðu hans eftir atkvæðagreiðslurnar í Frakklandi og Hollandi að lítill tilgangur virðist vera með því. Breska dagblaðið The Independent greindi frá því í gær að allar líkur væru á að Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands, myndi draga til baka tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu í landinu í breska þinginu á mánudag vegna þessarar óvissu. Blaðið hermir að með þessu sé ekki verið að slá sáttmálann af heldur vilji stjórnin bíða með að aðhafast nokkuð þar til Frakkar og Hollendingar hafi tekið skjalið í sátt. Áður hafði því verið staðfastlega haldið fram að engar breytingar yrðu gerðar á sáttmálanum en í fyrradag sagði talsmaður framkvæmdastjórnarinnar að það kæmi til greina í ljósi úrslitanna í vikunni. Endurbætur á honum verða því ef til vill gerðar á leiðtogafundi ESB-ríkjanna í Brussel síðar í þessum mánuði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×