Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær Daða Frey Kristjánsson, 33 ára, í þriggja ára fangelsi fyrir að nema tvær sjö ára telpur á brott úr strætóskýli við verslun Krónunnar í Árbæ í janúar síðastliðnum, aka með þær að Rauðavatni og brjóta þar gegn þeim.
Daði Freyr var ákærður fyrir frelsissviptingu, kynferðisbrot gegn börnum og brot gegn 193. ákvæði hegningarlaga, sem kveður á um barnsrán. Hann játaði sök skýlaust og var sakfelldur fyrir alla ákæruliði.
Daði kom að máli við telpurnar þar sem þær sátu í strætóskýli við verslun Krónunnar í Árbæ, sagðist hafa séð þær hnupla sælgæti og að þær yrðu að koma með honum, ella mundi hann hringja á lögregluna.
Hann ók svo með þær á afvikinn stað við Rauðavatn, settist aftur í til þeirra, kyssti aðra þeirra á kinnina og þuklaði á þeim báðum utan klæða. Þegar þær brugðust illa við ók hann með þær aftur í Árbæinn og hleypti þeim út úr bílnum.
Daði Freyr er dæmdur til að greiða báðum telpunum 800 þúsund krónur í bætur. Hann sat í gæsluvarðhaldi í nokkra daga í janúar en hefur síðan gengið laus.
Telpurnar tvær hafa glímt við misalvarlegar afleiðingar brotanna síðan í janúar. Í samtali við Fréttablaðið segir faðir þeirrar sem verr varð úti dóttur sína hafa sætt meðferð hjá Barnahúsi og Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, hún þori ekki að sofa ein í herbergi, fái martraðir og verði skelkuð í myrkri.
Þarf meðferð og fær martraðir
Stígur Helgason skrifar
