Innlent

Örtröð og barátta um leigubíla í miðborginni í nótt

Öngþveiti ríkti í miðborginni á tímabili í nótt og engan leigubíl var að fá vegna mikils mannfjölda á götunum. Talið er að allt að fimmtán þúsund manns hafi reynt að ná leigubíl nánast samtímis í nótt. Stelpurnar á Hreyfli-Bæjarleiðum höfðu ekki undan og þær fengu bæði hótanir og bónorð í nótt.



Mikill mannfjöldi var í miðborginni á menningarnótt en talið er að um 30 þúsund manns hafi verið í miðbænum þegar mest var. Ekki færri en 15 þúsund manns voru í borginni eftir að dagskrá menningarnætur lauk.

Þótt margir hafi ugglaust gengið heim í nótt í blíðunni reiddu sig fleiri á þjónustu leigubílastöðvanna til að komast heim til sín. Allar línur voru rauðglóandi á Hreyfli-Bæjarleiðum fram eftir morgni.

Svona mikið álag er óvenjulegt að sögn Laufeyjar Þorsteinsdóttur, hjá Hreyfli-Bæjarleiðum, en leigubílstjórar náðu með engum hætti að svara eftirspurn á menningarnótt.

Innan við sex hundruð leigubílar eru í borginni og má ætla að á annan tug þúsunda hafi þurft að ná í leigubíl nánast samtímis í nótt.

Stelpurnar hjá Hreyfli-Bæjarleiðum voru mest í því nú síðdegis að reyna að finna eigendur farsíma í óskilum sem liggja eftir í leigubílunum í tugatali.

Þeir sem hringja í stelpurnar á Hreyfli-Bæjarleiðum eru ekki alltaf að panta leigubíl. Stelpurnar fá stundum bæði bónorð og hótanir frá þeim sem hringja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×