Innlent

Óbreyttir stýrivextir ættu að draga úr neyslugleði

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Sérfræðingar greiningadeilda bankanna telja verðbólguhorfur hafa versnað. Það hafi leitt til þess að vaxtalækkunarferli Seðlabankans hafi tafist. Háir stýrivextir hafi ekki náð að slá á þenslu í þjóðfélaginu en ákvörðun Seðlabankans um óbreytta vexti ætti þó að draga úr neyslugleði heimilanna.

Kaupþing hækkaði vexti á nýjum íbúðarlánum í dag um 0,25 prósent og eru vextirnir þá komnir í 5,2 prósent. Þetta var tilkynnt í gær eftir að ljóst var að Seðlabankinn myndi ekki lækka stýrivexti fyrr en á næsta ári í stað síðasta fjórðungs þessa árs.

Glitnir hefur tekið ákvörðun um að hækka vexti á nýjum verðtryggðum húsnæðislánum til jafns við Kaupþing, en Landsbankinn hefur ekki tekið ákvörðun enn.

Björn Rúnar Guðmundsson forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans segist deila áhyggjum seðlabankans um þenslu að hluta en segir skýr merki um samdrátt. Hann segir að þó verði að horfa á hluti í samhengi. Ákvörðun um lækkun á þorskkvóta hafi sem dæmi gífurleg áhrif auk stóriðjuframkvæmda. Hann spáir litlum hagvexti á árinu, en að hann glæðist á næsta ári. Þannig skapist ekki mikil spenna þótt stóriðjuframkvæmdir fari í gang.

Seðlabankastjóri spáði í gær lækkun krónunnar og varaði við lánum í erlendri mynt. Flestar greiningardeildir spá því hinsvegar að krónan haldist áfram sterk þar sem háir vextir styrki krónuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×