Innlent

Forsætisráðherra segir sjávarútvegsráðherra hafa sýnt hugrekki

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir sjávarútvegsráðherra hafa sýnt hughrekki með því að fara að ráðleggingum fiskifræðinga og lækka veiðiheimildir þorsks á næsta ári um þriðjung.

Sjávarútvegsráðherra tilkynnti á fréttamannafundi í Ráðherrabústaðnum í morgun að aflaregla verði aflögð á næsta fiskveiðiári. Heildarþorskafli verður 130 þúsund tonn og að veiðigjald vegna þorsks verður lagt niður næstu tvö árin.

Minni breytingar verða á hámarksafla annarra tegunda. Til að bæta fæðubúskap þorsksins verða engar sumarveiðar leyfðar á loðnu og loðnuveiðar hefjast því ekki fyrr en í nóvember. Forsætisráðherra segir ríkisstjórnina alla standa á bakvið ákvörðun sjávarútvegsráðherra.

Ríkisstjórnin tilkynnti jafnframt að hún hygðist fara út í ákveðnar mótvægisaðgerðir. Meðal þess sem gert verður er að flýta uppbyggingu í samgöngu- og fjarskiptamálum sem og í mennta og menningarmálum og opinber störf flutt út á land.

Sjávarútvegsráðherra segir fullljóst að ákvörðunin skapar mikinn vanda fyrir sjávarbyggðir í landinu. Ráðherrann segist vonast til að þessi ákvörðun komi til með styrkja þorskstofninn og hægt verði að auka aflaheimildir fljótlega á næstu árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×