Fótbolti

Shaqiri og Xhaka ekki í Ólympíuhópi Sviss

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Shaqiri á æfingu með Bæjurum.
Shaqiri á æfingu með Bæjurum. Nordicphotos/AFP
Zherdan Shaqiri og Granit Xhaka, skærustu ungu stjörnur svissenskrar knattspyrnu, voru ekki í 18 manna Ólympíhópi Svisslendinga sem tilkynntur var í dag.

Shaqiri og Xhaka, sem báðir voru í silfurliði Svisslendinga á Evrópumóti U21 árs landsliða síðasta sumar, kusu að taka fullan þátt í undirbúningstímabili félaga sinna í stað þess að leika með landsliðinu.

Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA hefur gert félögum ljóst þau þurfi að leyfa leikmönnum sínum að spila með landsliðum sínum á leikunum. Það virðist þó ekki hafa haft tilætluð áhrif.

Shaqiri lét hafa eftir sér í síðustu viku að hann leggði umfram allt áherslu á undirbúningstímabilið með nýja félagi sínu, FC Bayern.

Xhaka, leikur með Borussia Mönchengladbach, verður einnig með þýska félaginu sem segist hafa náð samkomulagi við svissneska knattspyrnusambandið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×