Innlent

Innflutningurinn hefur tvöfaldast

Innflutningur á dýrum sem notuð eru við tilraunir hefur snaraukist á síðustu árum. Ólíkt því sem gerist í nágrannalöndunum hafa dýraverndunarsinnar ekki beint spjótum sínum að íslenskum tilraunastofum enda gilda mjög strangar reglur um meðferð dýranna. Dýr eru notuð við ýmis konar tilraunir hér á landi, sérstaklega á sviði lyfjafræði og lækninga. Tilraunadýr eru hins vegar ekki ræktuð hérlendis heldur eru þau flutt inn frá Danmörku. Að sögn Eggerts Gunnarssonar, dýralæknis á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, hefur innflutningurinn vaxið hröðum skrefum. Þannig voru ríflega þrjú þúsund tilraunamýs fluttar til landsins í fyrra, samanborið við 1.500 árið áður, en auk þess voru um sex hundruð rottur fluttar hingað inn árið 2004. "Menn eru einfaldlega að gera sér grein fyrir að dýr geta verið hentug í þessu skyni," segir Eggert. Mjög strangar reglur gilda um meðferð dýranna. Þannig kveður reglugerð á um að einungis megi nota dýr í tilraunum "ef ekki eru þekktar aðrar hagkvæmar og hentugar leiðir" og er þess gætt í hvívetna að dýrin þjáist eins lítið og mögulegt er. Tilraunadýranefnd, sem í situr siðfræðingur, fjallar um hverja einustu tilraun og einungis þeir sem hafa tilskilin réttindi fá að inna tilraunina af hendi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×