Fótbolti

Viðræður Eggerts og Hearts ganga hægt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eggert Gunnþór Jónsson, leikmaður Hearts.
Eggert Gunnþór Jónsson, leikmaður Hearts. Mynd/SNS
Ólafur Garðarsson, umboðsmaður Eggerts Gunnþórs Jónssonar, mun í næstu viku halda til Edinborgar til viðræðna um nýjan samning Eggerts.

Samningaviðræður hafa gengið hægt en Hearts hefur sent Ólafi þrjú tilboð sem hafa öllum verið hafnað.

Núverandi samningur Eggerts nær til ársins 2010 en Hearts verður að semja við hann að nýju nú þar sem hann hefur þegar náð ákveðnum fjölda leikja í byrjunarliði félagsins.

„Þeir vilja að Eggert semji til ársins 2012 en ég vil styttri samning," sagði Ólafur í samtali við skoska fjölmiðla. „Það er eitt af ágreiningsefnunum."

„Viðræðurnar eru á réttri leið en þeim er ekki lokið. Ég fer til Edinborgar í næstu viku en það þarf enn að ganga frá nokkrum lausum endum. En ég vonast til að þetta verði frágengið í lok næstu viku. Það er þá eða aldrei."

Ólafur sagði enn fremur að Hearts ætti enn eftir að standa við greiðslur sem Eggert á að fá samkvæmt núgildandi samningi.

En Eggert er sjálfur ánægður hjá Hearts og vill vera áfram hjá félaginu.

„Ég er ungur og þetta er mitt fyrsta tímabil í aðalliðinu. Vonandi verð ég hér áfram og held áfram að bæta mig."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×