Lífið

Óttast ekki að stíga fyrst á svið

Friðrik segir mikilvægt að fara rétt með málshættina.
Friðrik segir mikilvægt að fara rétt með málshættina.
„Við vildum annað hvort vera fyrst á svið eða síðust. Þetta var óskastaðan," segir Eurovisionfarinn Friðrik Ómar. Hann gefur lítið fyrir þær kenningar að slæmt sé að stíga fyrstur á svið i keppni á borð við þessari.

„Síðast þegar við vorum fyrst á svið þá enduðum við í áttunda sæti," segir Friðrik og vísar þar til þess þegar Birgitta Haukdal fór út með lagið „Open Your Heart". Að vera annar á svið segir hann vera allra verst, eins og Íslendingar fengu að prófa með laginu „Angel" árið 2002, sem fékk heil þrjú stig.

Hefnigjarnir Íslendingar geta glaðst yfir því hver vermir það óheillasæti nú. Það er enginn annar en fulltrúi Svíþjóðar, Charlotte Pernelli, sem hafði sigurinn naumlega af Selmu árið 1999.

Eurobandið ætlar sér að gera sitt allra besta í Serbíu, enda vill maður ekki geta kennt neinum öðrum um en sjálfum sér ef illa fer, að sögn Friðriks. Hann segir bandið munu gera sitt til að kynna sig úti, halda tónleika og reyna að að vekja athygli á sér.

„Við ætlum að ganga skrefinu lengra. Þetta er keppni, og maður þarf að keppa," segir Friðrik, sem ætlar sér að verða landi og þjóð til sóma. „Við þurfum að senda góðar fréttir heim. Maður þarf að passa hvað maður segir - og fara rétt með málshættina sína..."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.