Innlent

Beit lögreglumann í lærið

MYND/Pjetur

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að ráðast á lögregluþjón og bíta hann í lærið. Atvikið átti sér stað fyrir skemmtistaðinn Áttuna í Hafnarfirði í nóvember í fyrra.

Þangað var lögregla kvödd vegna þess að tilkynnt hafði verið um að maðurinn sem ákærður var hefði unnið skemmdarverk á skemmtistaðnum. Hann reyndist hins vegar viðskotaillur þegar lögregla ræddi við hann og færðu tveir lögreglumenn hann inn í lögreglubíl. Þegar verið var að koma honum fyrir beit hann annan lögreglumanninn í lærið.

Maðurinn sagðist við yfirheyrslur ekki minnast þess að hafa bitið af ásetningi í læri lögreglumannsins. Hann aftók hins vegar ekki að það kynni að hafa gerst í hita leiksins en honum hafi fundist verulega að sér þjarmað í aftursæti lögreglubifreiðarinnar.

Út frá framburði lögregluþjónanna og áverkum á öðrum þeirra þótti dómnum sannað að maðurinn hefði bitið lögreglumanninn. Maðurinn rauf með árásinni skilorð dóms vegna tveggja líkamsárása og var tekið tillit til þess við ákvörðun refsingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×