Innlent

Útboð á nýju varðskipi er að hefjast

MYND/Vilhelm Gunnarsson
Útboð á nýju varðskipi fyrir Landhelgisgæsluna er að hefjast. Ákveðið hefur verið að útboðið verði lokað.

Frestur til að taka þátt í lokuðu útboði er til 12. janúar, en útboðsgögn verða síðan afhent rúmum mánuði síðar. Um miðjan maí á að skila verðtilboðum og um miðjan júlí verður svo niðurstaða útboðskynnt og skrifað undir samning um byggingu skipsins. Gert er ráð fyrir allt að 90 metra löngu skipi og 16 metra breiðu. Samkvæmt útboðinu á hið nýja varðskip að geta dregið allt að 150 þúsunda tonna skip, sem á að geta sinnt löggæslu og björgunarstörfum, vera útbúið til að geta fengist við mengunarslys á hafi og að geta gefið þyrlum eldsneyti á flugi. Núverandi varðskip eru öll komin vel til ára sinna. Það yngsta, Týr er orðið 30 ára og Ægir systurskip Týs er komið vel á fjórða áratuginn, en aldursforsetinn er Óðinn sem kominn er á miðjan fimmta áratuginn. Gert er ráð fyrir að nýja skipið verði afhent tveimur og hálfu ári eftir undirritum samnings. Þá á að útvega Landhelgisgæslunni nýja flugvél og á hún að afhendast eftir ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×