Erlent

Hámarksrefsingar krafist fyrir glæpina

Líkum skilað. Kosovo-Albanar votta virðingu sína er jarðneskum leifum 41 Kosovo-Albana sem fannst í fjöldagröf í Serbíu var skilað til greftrunar í Kosovo á föstudag.
Líkum skilað. Kosovo-Albanar votta virðingu sína er jarðneskum leifum 41 Kosovo-Albana sem fannst í fjöldagröf í Serbíu var skilað til greftrunar í Kosovo á föstudag.

Saksóknarar í tímamótaréttarhaldi yfir meintum stríðsglæpamönnum í Serbíu fóru á föstudag fram á að sakborningarnir sextán yrðu dæmdir til hámarksrefsingar fyrir glæpi sína. Þeir eru sakaðir um að hafa verið í liði serbneskra skæruliða sem myrtu 192 króatíska stríðsfanga árið 1991.

Stríðsfangarnir voru teknir er Serbar hertóku króatíska bæinn Vukovar í nóvember 1991. Saksóknarinn, Dusan Kneze­vic, sagði sakborningana enn hafa tækifæri til að játa sekt sína, en gerðu þeir það ekki "hæfði þeim ekkert nema hámarksrefsing fyrir það hatur, hroka og grimmd sem þeir sýndu með verkum sínum.

Dauðarefsingar voru afnumdar í Serbíu-Svartfjallalandi árið 2000 en hámarksrefsing er fjörutíu ár í fangelsi. Búist er við að dómur verði kveðinn upp í næstu viku.

Í uppgjöri núverandi stjórnvalda í Serbíu-Svartfjallalandi við stríðsglæpi sem framdir voru í stjórnartíð Slobodans Milosevic gerðist það einnig í gær að jarðneskum leifum 41 Kosovo-Albana, sem fundust í fjöldagröf í Serbíu, var skilað til greftrunar í Kosovo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×