Íslenski boltinn

Línumaður Vals er sálfræðingur Keflavíkurliðsins í fótbolta

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Kristján Guðmundsson.
Kristján Guðmundsson. Mynd/Anton

„Það er mjög góð stemning fyrir þessum leik í kvöld og ég finn að það er myndast stemning hjá fólkinu hérna í Keflavík," sagði glaðbeittur þjálfari Keflavíkurliðsins, Kristján Guðmundsson, við Vísi en Keflavík tekur á móti Íslandsmeisturum FH í kvöld í stórleik 1. umferðar Pepsi-deildarinnar.

Síðast þegar Keflavíkurliðið steig inn á heimavöll sinn fór allt til fjandans. Liðið tapaði fyrir Fram og sá á eftir bikarnum til FH. Situr sá atburður ekkert í liðinu?

„Það er búið að grafa það mál. Við vinnum mjög markvisst hérna í Keflavík og höfum til að mynda verið að vinna í hugarþjálfun með sálfræðingi í tæplega eitt og hálft ár. Það var ekki lengi verið að vinna með þetta mál og það situr ekki í okkur," sagði Kristján en sálfræðingur liðsins er Hafrún Kristjánsdóttir, línumaður Vals í handbolta.

Keflavík rúllaði upp Val í fyrstu umferð í fyrra en Valur var þá langheitasta lið landsins. Sömu sögu er að segja af FH núna sem hefur unnið allt í vor. FH-ingar þurfa nú að fara sömu leið og Valur í fyrra.

„Það er margt líkt með því sem gerðist í fyrra og er upp á teningnum núna. Veðrið og völlurinn býður upp á ýmislegt í kvöld," sagði Kristján sposkur.

Keflvíkingar hafa sloppið nokkuð við umfjöllun til þessa en menn mega ekki gleyma að þeir hafa enn á að skipa gríðarsterku liði.

„Það er rétt að það hefur ekki farið mikið fyrir okkur í fjölmiðlum. Það kom smá þegar okkur var spáð öðru sæti. Þá fór fólk að tala um að við værum líklegir. Það truflar okkur ekkert að vera spáð góðu gengi og styrkir okkur í trúnni að við getum náð árangri," sagði Kristján Guðmundsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×