Innlent

Frakkar banna matarsóun með lögum

Svavar Hávarðsson skrifar
Verslunareigendum er einfaldlega bannað að henda nothæfum mat.
Verslunareigendum er einfaldlega bannað að henda nothæfum mat. Fréttablaðið/vilhelm
félagsmál Frakkland er fyrsta ríkið í heiminum sem bannar stórmörkuðum með öllu að henda eða eyðileggja óselda matvöru, og skylda eigendur þeirra til að gefa hana alla til góðgerðasamtaka eða matarbanka.Þetta er gert í krafti laga sem franska þingið samþykkti einróma, og innan fárra daga verður stórum matvöruverslunum bannað með öllu að henda mat, til dæmis miklu magni sem áður var hent þegar nálgaðist síðasta söludag. Í krafti þessarar lagasetningar liggur fyrir að góðgerðasamtök geta veitt bágstöddum mun fleiri máltíðir, svo skiptir milljónum árlega.Lagasetningin er tilkomin vegna herferðar þar sem almenningur, baráttufólk gegn fátækt og matar­sóun kom saman. Þessi fjölmenni hópur vonast nú til að geta talið fleiri ríki innan Evrópusambandsins á að gera slíkt hið sama.Eigendur verslana sem eru 400 fermetrar að gólffleti eða stærri eru nú skyldugir til að undirrita samninga við góðgerðasamtök um að koma matnum til þeirra sem hans þurfa sárlega. Ef ekki geta þeir átt yfir höfði sér þunga refsingu – sektir um allt að tíu milljónir íslenskra króna eða tveggja ára fangelsi.Hingað til hafa franskir matarbankar fengið um 100 þúsund tonn af mat gefins; þar af 35 þúsund tonn frá stórmörkuðum og stærri verslunum. Lögin þýða að ef þetta magn vex um 15 prósent þá verður hægt að veita bágstöddum tíu milljónum máltíða fleiri en hingað til.Lögin eru ekki síður talin mikilvæg vegna þess að framleiðendur geta nú gefið umframframleiðslu beint til góðgerðasamtaka, en áður var það flókið ferli og tafsamt – einkum ef varan var sérmerkt einstökum verslunum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.