Innlent

Stanslausar yfirheyrslur í 10 tíma

Örnu Ösp Magnúsardóttur var haldið ósofinni í stanslausum yfirheyrslum í tíu klukkutíma hjá lögreglunni í Ísrael á sunnudaginn, borin þeim sökum að hylma yfir með hryðjuverkamönnum. Hún vill að utanríkisráðuneytið beiti sér í málinu. Í samtali við fréttastofu í dag sagði Arna að þegar hún hafi lenti á flugvelinum í Tel Aviv hafi beðið hennar menn frá öryggis- og landamæralögreglunni í Ísrael sem hafi handtekið hana. Í kjölfarið hafi hún verið flutt til yfirheyrslu á þeim forsendum að af henni stafaði ógn. Þar yfirheyrðu hana svo þrír til fimm menn frá öryggissveitum og varnarmálaráðuneytinu í alls tíu klukkutíma. Einn þeirra sagði henni að hann hefði leyfi frá yfirmanni sínum til að gera hvað sem er við hana og hinir höfðu í hótunum. Þá var reynt að fá hana til að játa á sig aðild að hryðjuverkasamtökum og hún sökuð um að hylma yfir með hryðjuverkamönnum. Þegar fimm tímar voru liðnir af yfirheyrslunum gerði Arna mönnunum grein fyrir því að hún hefði verið vakandi í tuttugu og fimm klukkutíma og þá var gert fimm mínútna hlé. Síðan byrjuðu yfirheyrslurnar á ný og stóðu í fimm tíma til viðbótar. Yfirheyrendurnir báðu Örnu um að gefa upp nöfn á vinum sínum og fjölskyldu, sem hún ekki gerði. Við það reiddust þeir mjög og hótuðu að halda henni enn lengur. Þegar hérna var komið sögu var hún svo flutt á lögreglustöðina á flugvellinum þar sem hún var látin dúsa í sex klukkutíma í viðbót. Þar reyndi hún að fá lögfræðing og bað um að fá samband við fjölskyldu sína. Henni var þá sagt að hún hefði engan rétt til eins né neins og svo var henni hent inn í gæsluvarðhaldsmiðstöð, ásamt fjórum öðrum konum. Þar var hún í röska tuttugu tíma, áður en henni var loksins sleppt. Í samtali við fréttastofu í dag sagðist Arna ekki beinlínis hafa verið hrædd meðan á yfirheyrslunum stóð þar sem hún hafi verið örþreytt eftir alla vökuna. Aðspurð segist hún ekki telja að íslensk stjórnvöld hafi sagt til sín eða að málið tengist mótmælunum á Nordica á nokkurn hátt. Líklegra sé að yfirvöld í Ísrael hafi komist að því að hún hafi starfað fyrir Palestínumenn. Hún ætlar að hafa samband við utanríkisráðuneytið og fara þess á leit að það beiti sér í málinu. Ekki náðist í utanríkisráðherra eða aðstoðarmann hans í dag.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×