Innlent

Kastaði grænu kryddi inn í bíl og var fótbrotinn með álkylfu

Karlmaður á þrítugsaldri var dæmdur í morgun fyrir að fótbrjóta annan karlmann með hafnaboltakylfu í júní árið 2008. Maðurinn réðist á fórnalamb sitt á bílastæði við Klukkurima í Grafarvogi þar sem hann taldi fórnalambið hafa stolið bílakerru sem hann átti.

Mennirnir virðast samt hafa komist að einhverskonar samkomulagi um kerruna því fórnalambið sagðist hafa gert samkomulag við árásamanninn um að borga honum andvirði kerrunnar með kannabisefnum.

Þegar þeir hittu árásarmanninn köstuðu félagarnir böggli inn í bíl ofbeldisseggsins sem innihélt grænt krydd. Sjálfur sagði brotaþolinn að hann og félagi hans hafi ákveðið að fíflast í árásamanninum.

Eftir að hafa kastað kryddinu inn í bíl árásarmannsins óku þeir á brott og árásarmaðurinn á eftir. Að lokum stöðvuðu þeir bifreiðarnar í Grafarvoginum þar sem árásarmaðurinn réðist á fórnalamb sitt vopnaður álkylfu. Fórnalambið fótbrotnaði í árásinni. Sjálfur sagði hann fyrir dómi að hann hafi verið í ár að jafna sig eftir aðförina.

Árásarmaðurinn hefur margsinnis komist í kast við lögin, meðal annars vegna ráns og ofbeldisbrota.

Honum var því gert að sæta fangelsi í átta mánuði en þar af eru sex mánuðir skilorðsbundnir. Hann þarf því að afplána þriggja mánaða fangelsisdóm. Þá skal hann greiða fórnalambi sínu tvær milljónir í miskabætur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×