Erlent

Rasmussen verður næsti framkvæmdastjóri NATO

Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, verður næsti framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins. Hollendingurinn Jaap de Hoop Scheffer, sem lætur af embætti í sumar, staðfesti þetta á blaðamannafundi með Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta og Angelu Merkel kanslara Þýskalands eftir hádegi í dag.

Framkvæmdastjórinn fráfarandi vildi ekki upplýsa hvers vegna Tyrkir hefðu látið af andstöðu sinni við skipan Fogh Rasmussen í embættið en Frakklandsforseti lagði áherslu á að þetta hefði verið einróma ákvörðun leiðtoga NATO ríkjanna. Leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins sem haldinn var í Frakklandi og Þýskalandi lauk fyrir sundu og var stefnt að því að arftaki de Hoop Scheffer yrði valinn á fundinum.

Tyrkir voru andsnúnir því að danski forsætisráðherrann tæki við vegna þess að þeir töldu hann ekki hafa tekið af nægilega mikilli festu á skopteikningamálinu þegar danska blaðið Jótlandspósturinn birti umdeildar skopmyndir af Múhameð spámanni 2006. Auk þess eru Tyrkir ósáttir við að dönsk yfirvöld hafi ekki lokað sjónvarpsstöð Kúrda í Danmörku. Sú stöð mun rekin af Verkamannaflokki Kúrdistans, PKK, sem Tyrkir, fjölmörg Evrópuríki og Bandaríkjamenn skilgreina sem hryðjuverkasamtök. Þau berjast fyrir sjálfstæðu ríki Kúrda.

Fogh Rasmussen naut stuðnings helstu Evrópuvelda og Bandaríkjanna í embættið og var mikið búið að þrýsta á Tyrki að láta af andstöðu sinni við skipan hans.

Rasmussen verður fyrsti Norðurlandabúinn til að gegna stöðunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×