Erlent

Samstaða bandamanna bætt

Fólk sem hleypt var nærri leiðtogunum reynir að heilsa Barack Obama Bandaríkjaforseta fyrir utan fundarstaðinn í Strassborg í gær.  fréttablaðið/AP
Fólk sem hleypt var nærri leiðtogunum reynir að heilsa Barack Obama Bandaríkjaforseta fyrir utan fundarstaðinn í Strassborg í gær. fréttablaðið/AP

Undir dynjandi fagnaðarlátum hét Barack Obama Bandaríkjaforseti því í gær að koma tengslum lands síns við Evrópu í samt lag. Sagði hann heimsbyggðina hafa sameinast um stund eftir hryðjuverkaárásirnar árið 2001 en síðan hefðum „við lent á röngu spori vegna Íraks“.

„Við verðum að vera hreinskilin við okkur sjálf,“ sagði Obama. „Á undanförnum árum höfum við leyft bandalagi okkar að reka á reiðanum.“

Obama sagði að þrátt fyrir þá biturð sem deilurnar um Íraksstríðið hefðu skapað yrðu Bandaríkin og bandamenn þeirra að standa saman því „al-Kaída er enn ógn“.

Á borgarafundi með Þjóðverjum og Frökkum í íþróttahúsi í Strassborg hvatti Obama enn fremur Evrópumenn til að styðja viðleitni ríkisstjórnar sinnar til að uppræta hryðjuverkaöfl í Afganistan og Pakistan, og Evrópa ætti ekki að vænta þess að Bandaríkin bæru allan kostnaðinn af því að fjölga í herliðinu í Afganistan.

„Þetta er sameiginlegt vandamál,“ sagði hann við upphaf sextíu ára afmælisleiðtogafundar bandalagsins, og bætti við: „og það krefst sameigin­legs átaks.“

Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, staðfesti í gær að hann sæktist eftir því að verða næsti framkvæmdastjóri NATO.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×