Innlent

Ný viðbygging við Heilbrigðisstofnun Suðurlands tekin í notkun

Mynd/Róbert
Mynd/Róbert
Síðari hluti nýrrar viðbyggingar við Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi verður formlega tekin í notkun í dag. „Hér er enda um mikið hagsmunamál að ræða fyrir þá 20 þúsund íbúa, sem við þjónustum, auk allra annarra, sem hingað þurfa að leita," segir Magnús Skúlason, forstjóri heilbrigðisstofnunarinnar, í tilkynningu.

Þar segir að með tilkomu nýju byggingarinnar fær heilsugæslan nýtt og mun rúmbetra húsnæði á 1. hæð og endurhæfingaraðstaða verður stórbætt.

Nýbyggingin er þrjár hæðir auk kjallara alls 5.400 fermetrar. Áætlaður heildarkostnaður við bygginguna er um 1,7 milljarður króna. Framkvæmdir við bygginguna hófust síðla árs 2004. Eldra húsnæði Heilbrigðisstofnunarinnar á Selfossi var um 4.500 fermetrar, þannig að um tvöföldun er að ræða með tilkomu nýju byggingarinnar. Í kjallara verður fullkomin endurhæfingaraðstaða, kennslu- og fundaaðstaða, kapella, tæknirými og geymslur. Á 1. hæð verður heilsugæslustöð og á 2. og 3. hæð eru hjúkrunardeildir fyrir aldraða, sem voru opnaðar á árinu 2008. Á hvorri deild eru 20 hjúkrunarrúm fyrir aldraða.

„Nú er tekinn í notkun síðasti áfangi nýbyggingar HSu. Að þessu sinni bætist við ný og stórglæsileg heilsugæslustöð, ásamt góðri aðstöðu fyrir endurhæfingu, kennslu, fundi og ýmsa stoðþjónustu. Framkvæmdir hafa gengið mjög vel þó nokkur töf hafi orðið á þeim. Ég er sérstaklega ánægður með það jákvæða hugarfar sem ríkt hefur gagnvart þessari framkvæmd. Heilbrigðisráðuneyti, þingmenn, sveitarstjórnir, starfsfólk og íbúar hafa lagst á eitt og stutt vel við bakið á þessu verkefni - og það munar um þann stuðning," segir Magnús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×