Innlent

Ríkisendurskoðandi: Bréf Álfheiðar ólíðandi

Steingrímur Ari Arason og Álfheiður Ingadóttir.
Steingrímur Ari Arason og Álfheiður Ingadóttir.

Sveinn Arason, ríkisendurskoðandi, segir með öllu ólíðandi að stjórnendur ríkisstofnanna geti átt á hættu að vera sakaðir um að hafa brotið gegn góðum starfsháttum og hollustu- og trúnaðarskyldum sínum með því einu að leita ráða hjá Ríkisendurskoðun. Þar vísar Sveinn til bréfs sem Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, sendi Steingrími Ara Arasyni, forstjóra Sjúkratrygginga Íslands, nýverið þar sem fram kemur að hún hyggst áminna hann fyrir brot á almennum starfsskyldum ríkisstarfsmanna.

Forsaga málsins er sú að Steingrímur leitaði til ríkisendurskoðanda í kjölfar þess að ráðherra setti reglugerð um þátttöku sjúkratrygginga í tannlækninga- og tannréttingakostnaði. Í bréfi til Steingríms segist Álfheiður telja að honum hefði borið að leita fyrst til ráðuneytis eða ráðherra. „Með því að leita ekki beint til ráðuneytisins hafir þú brotið gegn góðum starfsháttum og hollustu- og trúnaðarskyldum þínum," segir Álfheiður meðal annars. Sjálfur hefur Steingrímur sagt að bréfið hafi komið honum í opna skjöldu.

Ríkisendurskoðandi hefur sent Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, bréf vegna málsins. Sveinn segir ekkert óeðlilegt við það að stjórnendur ríkisstofnana leiti ráða og upplýsinga hjá Ríkisendurskoðun um hver þau mál sem fjalla um meðferða og ráðstöfun á ríkisfé. Hann gerir því alvarlegar athugasemdir við bréf Álfheiðar til Steingríms.

Eðlileg samskipti

„Í símtali mínu við forstjóra Sjúkratrygginga Íslands ræddum við einkum um hvaða fjárhagslegu skilyrði væru nauðsynlegt að setja í tengslum við þátttöku ríkissjóðs í kostnaði skv. reglugerðinni, enda ekki að finna leiðsögn í því efni í reglugerðinni sjálfri. Gerði hann m.a. grein fyrir því að fyrirhugaður væri fundur með ráðuneytinu um fyrrnefnda reglugerð og kvaðst vilja afla upplýsinga vegna hans," segir í bréfi Sveins. Hann segir að um hafi verið að ræða eðlileg og alvanaleg samskipti milli forstjóra ríkisstofnunar og Ríkisendurskoðunar.

„Það er að mínu mati með öllu ólíðandi að stjórnendur ríkisstofnana geti átt á hættu að vera sakaðir um að hafa „brotið gegn góðum starfsháttum og hollustu- og trúnaðarskyldum" sínum með því einu að leita ráða hjá Ríkisendurskoðun um fjárreiðutengd málefni. Með vísan til þessa tel ég nauðsynlegt að gera alvarlegar athugasemdir við þær röksemdir sem heilbrigðisráðherra beitir í umræddu bréfi," segir Sveinn. Bréf hans til forseta Alþingis er hægt að lesa hér.


Tengdar fréttir

Ráðherra áminnir forstjóra Sjúkratrygginga

Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra hefur í hyggju að áminna Steingrím Ara Arason forstjóra Sjúkratrygginga Íslands fyrir brot á almennum starfsskyldum ríkisstarfsmanna samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisisins. Forsaga málsins er sú að Steingrímur leitaði til ríkisendurskoðanda í kjölfar þess að ráðherra setti reglugerð um þáttöku sjúkratrygginga í tannlækninga- og tannréttingakostnaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×