Innlent

Starfsmönnum LSH fækkar

Starfsmönnum hefur fækkað um 350 á síðustu misserum, en reynt er að forðast beinar uppsagnir eins og kostur er. fréttablaðið/pjetur
Starfsmönnum hefur fækkað um 350 á síðustu misserum, en reynt er að forðast beinar uppsagnir eins og kostur er. fréttablaðið/pjetur

Starfsmönnum á Landspítalanum hefur fækkað um 350 á síðustu misserum og eru þeir nú 4.600 talsins. Á síðasta ári fækkaði dagvinnustöðugildum á spítalanum um 202 og eru nú 3.650 alls.

Þetta kemur fram í pistli Björns Zoëga, forstjóra á heimasíðu LSH. Hann rekur þar niðurskurðarsögu spítalans en á síðasta ári var hagrætt á LSH um þrjá milljarða króna eða rúmlega átta prósent af rekstarfé ársins á undan. Illa gekk að hagræða á fyrri hluta ársins og voru launagjöld spítalans 650 milljónum yfir markmiðum eftir sjö mánuði. Þrír síðustu mánuðir ársins komu mun betur út rekstrarlega og var launahallinn um 200 milljónir króna eftir árið.

Björn segir að árið 2010 verði erfitt. Krafan um niðurskurð sé níu prósent, eða 3,2 milljarðar króna. Ítarlegar aðgerðir hafa þegar verið kynntar til að mæta þessum niðurskurði. „Tölur fyrir janúar og um yfirvinnuna um jól og nýár benda áfram til þess að við séum á réttri leið,“ skrifar Björn. Janúar var fjórði mánuðurinn í röð þar sem launaútgjöld voru vel innan fjárheimilda þrátt fyrir talsverðan niðurskurð. Á tveimur árum er niðurskurðurinn á LSH orðinn um sautján prósent. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×