Sport

Sjáðu fyrsta fullkomna níu pílna leikinn á HM í fimm ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þrátt fyrir níu pílna leik tókst James Wade ekki að sigra Stephen Bunting.
Þrátt fyrir níu pílna leik tókst James Wade ekki að sigra Stephen Bunting. getty/Kieran Cleeves

Englendingurinn James Wade náði í dag því sem alla pílukastara dreymir um, að ná svokölluðum níu pílna leik og það á heimsmeistaramótinu.

Níu pílna leikur er þegar keppanda tekst að taka út 501 með eins fáum pílum og mögulegt er, eða aðeins níu.

Afar erfitt er að ná þessum níu pílna leik og til marks um það hafði það ekki gerst á HM síðan 2016. Gary Anderson náði því þá gegn Jelle Klaasen.

Biðinni eftir næsta níu pílna leiknum á HM lauk svo í dag þegar Wade náði þeim áfanga gegn Stephen Bunting í 32-manna úrslitum.

Wade náði níu pílna leiknum í öðrum legg í fimmta setti. Hann jafnaði þá í 1-1. Níu pílna leikinn má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Níu pílna leikur hjá James Wade

Tilfinningin var þó eflaust súrsæt fyrir Wade því hann tapaði viðureigninni gegn Bunting, 4-2, þrátt fyrir að vinna fyrstu tvö settin. Hann er því úr leik á HM.

Þetta er í þriðja sinn sem Wade nær níu pílna leik í viðureign í sjónvarpi. Hann afrekaði það einnig í Grand Slam of Darts 2008 og á World Grand Prix 2014.

Bein útsending frá HM í pílukasti stendur nú yfir á Stöð 2 Sport 3.


HM í pílukasti er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. HM í pílukasti er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×