Sport

Federer missir af Opna ástralska í fyrsta sinn á ferlinum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Roger Federer verður ekki klár fyrir Opna ástralska vegna aðgerða á hné sem hann fór í fyrr á þessu ári.
Roger Federer verður ekki klár fyrir Opna ástralska vegna aðgerða á hné sem hann fór í fyrr á þessu ári. EPA-EFE/NIC BOTHMA

Hinn 39 ára gamli Roger Federer mun missa af Opna ástralska meistaramótinu í tennis sem fram fer í febrúar vegna meiðsla. Er það í fyrsta sinn sem hann missir af mótinu á ferli sínum en hann hefur alls sex sinnum staðið uppi sem sigurvegari í Ástralíu.

Roger Federer hefur unnið alls tuttugu risamót á ferli sínum í tennis og þar af sex sinnum Opna ástralska meistaramótið. Svisslendingurinn hafði stefnt að því að bæta sjöunda titlinum í safnið þar sem mótið fer ekki af stað fyrr en 8. febrúar á næsta ári.

Það hefur hins vegar tekið Federer lengri tíma að jafna sig af aðgerð á hné en reiknað var með og því mun hann ekki taka þátt í mótinu. Hann fór í aðgerð í febrúar á þessu ári en þurfti svo að fara í aðra aðgerð í júní.

Alls hefur hann tekið þátt á Opna ástralska í 21 skipti í röð. Hann er því að missa af mótinu í fyrsta sinn á þessari öld.

„Roger rann út á tíma. Hann verður ekki líkamlega tilbúinn í þau átök sem fylgja mótinu,“ sagði Craig Tiley, mótstjóri Opna ástralska.

Federer er í endurhæfingu í Dubai sem stendur og stefnir á að taka þátt að nýju í lok febrúar eða byrjun mars. Helstu markmið þessa 39 ára gamla tenniskappa á árinu 2021 eru sigur á Opna bandaríska eða Wimbledon-mótinu í Bretlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×