Erlent

Fundu örplast í fylgju ófæddra barna

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Ekki liggur fyrir hvaða afleiðingar örplastið getur haft í för með sér.
Ekki liggur fyrir hvaða afleiðingar örplastið getur haft í för með sér. Getty

Í fyrsta sinn hefur örplast hefur fundist í fylgju ófæddra barna sem vísindamenn segja vera „gríðarlegt áhyggjuefni.“ Ekki liggur þó fyrir á þessu stigi hverjar heilsufarslegar afleiðingar af völdum örplasts í fylgju kunna að vera að því er fram kemur í umfjöllun Guardian um málið.

Vísindamenn segja þó að líkaminn geti borið efni sem geti valdið langtíma skaða eða haft neikvæð áhrif á mótun ónæmiskerfisins í fóstrinu. Líklegt þykir að örplastið hafi annað hvort verið í mat sem móðirin borðaði eða hún hafi andað því að sér og þannig hafi það síðan borist í fylgjuna.

Örplastið fannst í fylgju fjögurra hraustra barnshafandi kvenna sem áttu hefðbundna meðgöngu og fæðingu án inngripa. Örplastið fannst bæði í fóstur- og móðurhlið fylgjunnar og í himnunni sem fóstrið þroskast í. Um tugur örplastagna fundust í rannsókninni en aðeins um 4% fylgjunnar var rannsökuð sem engu að síður bendir til þess að heildarfjöldi örplastagna sé mun meiri.

Örplast fannst í fylgju fjögurra kvenna sem voru hraustar á meðgöngunni.Getty

Allar agnirnar sem rannsakaðar voru voru úr plasti sem hafði verið litað blátt, rautt, appelsínugult eða bleikt, sem hugsanlega geti komið úr umbúðum, málningu eða snyrti- eða hreinlætisvörum.

Örplastagnirnar voru flestar um tíu míkrón að stærð, eða um 0.01 millimetrar, sem er nógu smátt til þess að agnirnar geti ferðast um blóðrásina. Að því er fram kemur í frétt Guardian er ekki útilokað að örplastagnirnar hafi komist inn í líkama barnanna en rannsakendum tókst ekki að leggja fullnægjandi mat á hvort svo væri.

„Þetta er eins og að eignast óhefðbundið barn: Ekki lengur aðeins samsett úr mannafrumum heldur einnig úr blöndu af lífrænum og ólífrænum efnum,“ segir Antonio Ragusa sem leiddi rannsóknina sem birtist í vísindatímaritinu Environment International. „Mæðurnar voru í áfalli.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×