Sport

Þegar Trölli stal senunni á HM í pílukasti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Peter Wright sigraði Steve West í búningi Trölla.
Peter Wright sigraði Steve West í búningi Trölla. getty/Luke Walker

Heimsmeistarinn Peter „Snakebite“ Wright mætti til leiks klæddur eins og Trölli (e. Grinch) á fyrsta degi heimsmeistaramótsins í pílukasti.

Wright er þekktur fyrir skrautlega framkomu og hanakambana sína. Fyrir hvern leik á HM eyða hann og eiginkona hans drjúgum tíma í að laga og lita hárið á honum.

Hann toppaði sig samt sennilega í gær þegar hann mætti til leiks í búningi Trölla, grænklæddur, með grænt hár og meira að segja grænar augabrúnir.

Wright olli heldur engum vonbrigðum í leiknum og hóf titilvörnina með öruggum sigri á Steve West, 3-1. Hann er því kominn áfram í 2. umferð HM.

Wright, sem er fimmtugur, vann langþráðan heimsmeistaratitil í fyrra þegar hann hafði betur gegn Michael van Gerwen í úrslitaleik, 7-3.

Aðeins 500 áhorfendur voru mættir í Alexandra höllina í London í gær. Frá og með deginum í dag verður svo leikið fyrir luktum dyrum vegna samkomutakmarkana sökum kórónuveirufaraldursins.

Bein útsending frá öðrum degi HM í pílukasti hefst klukkan 11:45 á Stöð 2 Sport 3.


HM í pílukasti er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. HM í pílukasti er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×