Sport

Vonarstjarnan rústaði á sér hnénu um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Cincinnati Bengals og Washington Football Team hópuðust í kringum Joe Burrow til að veita honum stuðning þegar hann var keyrður af velli eftir að hafa rústað hnénu á sér.
Leikmenn Cincinnati Bengals og Washington Football Team hópuðust í kringum Joe Burrow til að veita honum stuðning þegar hann var keyrður af velli eftir að hafa rústað hnénu á sér. AP/Al Drago

Nýliðinn Joe Burrow meiddist illa á hné í NFL-deildinni um helgina og verður ekkert meira með á tímabilinu.

Cincinnati Bengals valdi leikstjórnandann Joe Burrow númer eitt í nýliðavali NFL-deildarinnar í sumar og hann var maðurinn sem átti að koma liðinu aftur til metorða í ameríska fótboltanum.

Joe Burrow hefur líka spilað mjög vel á köflum á sínu fyrsta tímabili og það leit allt út fyrir það að hann væri kominn með byr í seglin. Cincinnati Bengals var kannski ekki að vinna marga leiki en liðið var að eignast nýja stuðningsmenn því fólk hafði mikinn áhuga á að fylgjast með þessari framtíðarstjörnu NFL-deildarinnar.

Þess vegna var áfall helgarinnar enn meira. Joe Burrow meiddist þá illa á vinstra hné eftir að hafa klemmst á milli tveggja varnarmanna Washington liðsins. Það var ljóst um leið að þetta voru mjög alvarleg meiðsli.

Joe Burrow hafði fengið að finna á því allt tímabilið enda var þetta 72. höggið sem hann fær í leik með Cincinnati Bengals á leiktíðinni. Strákurinn hafði sloppið vel hingað til en að þessu sinni hafði lukkan yfirgefið hann.

Í gær kom síðan staðfesting á því að Joe Burrow hafði þarna rústað á sér hnénu því myndatakan sýndi að hann hafði slitið öll helstu liðbönd og krossbönd í vinstri hné sínu. Það á enn eftir að koma í ljós hversu illa hnéð er farið.

Þetta þýðir um leið að Joe Burrow spilar ekki meira á þessu tímabili og gæti verið frá í níu til tólf mánuði. Það er því líklegt að Cincinnati Bengals þurfi að hefja tímabilið án hans.

Zac Taylor, þjálfari Cincinnati Bengals, hrósaði stráknum fyrir það hvernig hann tók á þessu áfalli en hann reyndi að horfa björtum augum til framtíðar. „Hann hefur verið jákvæður, í rútunni, í flugvélinni og á svæðinu í dag,“ sagði Zac Taylor.

Joe Burrow tístaði strax eftir leikinn og það var stutt og laggott: Sjáumst á næsta ári.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×