Sport

Fagnaðarfundir hjá Anníe Mist og Katrínu Tönju: Ekki meira af FaceTime

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir og Anníe Mist Þórisdóttir með Freyju Mist á milli sín.
Katrín Tanja Davíðsdóttir og Anníe Mist Þórisdóttir með Freyju Mist á milli sín. Instagram/@anniethorisdottir

Það eru tæpar þrjár vikur síðan að Katrín Tanja Davíðsdóttir tryggði sér silfurverðlaun á heimsleikunum í CrossFit og vika síðan að hún kom heim til Íslands.

Katrín Tanja er nú búin með sóttkví sína og farin að hitta sitt fólk. Þetta hefur verið langur tími enda endaði tímabilið sem átti að klárast í byrjun ágúst ekki fyrr en í lok október.

Í gær voru fagnaðarfundir hjá íslensku heimsmeisturunum Anníe Mist Þórisdóttur og Katrínu Tönju. Þær eiga ekki aðeins það sameiginlegt að hafa unnið heimsleikana tvisvar sinnum heldur eru þær einu CrossFit konurnar sem hafa unnið gull-, silfur- og bronsverðlaun á heimsleikunum.

Anníe Mist og Katrín Tanja hafa ekkert falið það fyrir neinum hversu góðar vinkonur þær eru og það var því kominn heldur betur tími á það að þær hittust á ný.

Það sem meira er að Katrín Tanja fékk að knúsa Freyju Mist, dóttur Anníe Mistar, í fyrsta sinn, þremur mánuðum eftir að hún kom í heiminn.

„Við erum svo hamingjusöm með að Katrín frænka er loksins komin heim,“ skrifaði Anníe Mist á Instagram síðu sína og birti mynd af henni, Katrínu og auðvitað hinni þriggja mánaða Freyju Mist.

„Þetta hefur verið langur tími og svo mikið hefur gerst á þeim tíma en samt finnst mér eins og ég hafði faðmað hana síðast í gær. Við erum búin að fá nóg af FaceTime í bili,“ skrifaði Anníe.

„Ég er endalaust þakklát fyrir að hafa þessa manneskju í mínu lífi og nú fær litla stelpan mín loksins að hitta hana,“ skrifaði Anníe og bætir nokkrum hjörtum við færslu sína sem sjá má hér fyrir neðan.

Ein sú fyrsta til að skrifa skilaboð við færsluna var síðan heimsmeistarinn Tia-Clair Toomey. „Oh þetta er æðislegt,“ skrifaði Tia-Clair Toomey.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×