Innlent

Stundum gengið of langt í sóttvarnaraðgerðum

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, vísir/vilhelm
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, vísir/vilhelm  

Fjármálaráðherra segist stundum hafa talið of langt gengið í sóttvarnaraðgerðum. Mikilvægt sé að taka gagnrýna umræðu um ákvarðanir stjórnvalda.

Sara Elísa Þórðardóttir, þingmaður Pírata, spurði Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra, um sóttvarnaraðgerðir í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun.

„Mannréttindi, ferðafrelsi, atvinnufrelsi og einstaklingsfrelsi hefur verið skert á fordæma- og fyrirvaralausan hátt hérlendis síðastliðna níu mánuði,“ sagði Sara og spurði hvort fjármálaráðherra væri þeirrar skoðunar að meðalhófs hafi verið gætt.

Hún spurði hvort ráðherra líti svo á að meðalhófs hafi verið gætt. „Eða lítur ráðherra svo á að frelsi hafi verið takmarkað umfram það sem aðstæður gáfu tilefni til?“

Bjarni sagði ekki auðvelt að svara hvort meðalhófs hafi verið gætt í einu og öllu. Alltaf hafi þó verið stefnt að því.

„Ég get alveg sagt fyrir mitt leyti að stundum hefur manni fundist að svona hinar tölulegu staðreyndir sem við höfum í höndunum hverju sinni gefi kannski ekki tilefni til að ganga alveg jafnlangt eins og við erum að gera á einstaka sviðum,“ sagði Bjarni. 

„Það liggur til dæmis fyrir að við höfum verið að stöðva atvinnustarfsemi þar sem er svona einstaklingsþjónusta. Snyrtistofur, hárgreiðslustofur og slíkir aðilar hafa þurft að loka starfsemi sinni. Það er mjög fátítt að það sé gert í öðrum löndum.“

„Það er nokkuð alvarlegt að gera það vegna þess að þarna er auðvitað um framfærslu og lífsviðurværi fólks að ræða,“ sagði Bjarni.

Sara Elísa spurði Bjarna hvort aukin gagnrýni stjórnarliða væri mögulega til þess fallin að ýta undir rof á samstöðu í samfélaginu. Bjarni sagðist ekki hafa áhyggjur af því.

„Við megum aldrei ganga út frá því, jafnvel þótt mikið sé undir, að stjórnvöld eigi að hafa og hljóti að hafa allar heimildir til þess að grípa inn í líf fólks og rekstur fyrirtækja.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×