Innlent

Tjáningin óendanlega verðmætari en starfið um borð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Arnar Gunnar ræðir um reynslu sína í kvöldfréttum RÚV.
Arnar Gunnar ræðir um reynslu sína í kvöldfréttum RÚV. RÚV

21 árs háseti á frystitogaranum Júlíusi Geirmundssyni, þar sem nær allir smituðust á Covid-19 á þriggja vikna túr, segir hegðun útgerðarinnar í veikindum skipverja í takti við fyrri hegðun gagnvart starfsmönnum hvað öryggi og heilsu starfsmanna snertir. Hann óttast ekki að missa starfið vegna orða sinna því tjáning hans á því sem á gekk skipti meira máli en starf hans um borð.

Lögreglan á Vestfjörðum skoðar nú hvort ástæða sé til að rannsaka málið. Tuttugu og tveir af 25 skipverjum sýktust af kórónuveirunni í hópsmiti sem kom upp um borð fljótlega eftir að lagt var á haf út. Þrátt fyrir það hélt skipið áfram veiðum í túr sem tók þrjár vikur. Verkalýðsfélag Vestfjarða og Sjómannasambandið hafa gagnrýnt stjórnendur Hraðfrystihússins Gunnvarar harðlega. Skipverjum hafi meðal annars verið meinað að tjá sig um veikindi sín meðan á þeim stóð.

Arnar Gunnar Hilmarsson er háseti á Júlíusi Geirmundssyni, farið fimmtán túra með skipinu og meðal þeirra sem veiktust af Covid-19 á túrnum umdeilda. Hann ræddi vikurnar þrjár og viðbrögð útgerðarinnar í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.

Grjótharður píndi sig á þrjár vaktir fárveikur

„Sá sem varð veikastur er einn harðasti maður, sem ég veit um, og hann lét sig hafa það í einhverjar þrjár vaktir að vinna veikur. Svo var hann einfaldlega orðinn svo slæmur að hann bara gat það mögulega ekki. Það var bara erfitt að horfa upp á hann færa sig upp af bekknum og upp í sjúkraklefa,“ sagði Arnar Gunnar í kvöldfréttum RÚV.

22 af 25 skipverjum á Júlíusi Geirmundssyni reyndust smitaðir af Covid-19.Vísir/Hafþór

Júlíusi Geirmundssyni var siglt til hafnar á Ísafirði eftir þrjár vikur á sjó. Vegna brælu og þar sem taka þurfti olíu. Í leiðinni fóru heilbrigðisstarfsmenn um borð og skipverjarnir fóru í kórónuveirupróf.

„Þannig að í rauninni var skimunin þriðja í forgangsröðinni,“ segir Arnar. Ekki var beðið eftir niðurstöðu úr sýnatöku í landi, þrátt fyrir mikil veikindi um borð, heldur siglt á haf út. Þegar niðurstöður bárust var togaranum snúið við en skipverjum tilkynnt að þeir ættu að klára aflann og hefja lokaþrif á skipinu.

„Ljóta helvítis yfirklórið“

Útgerðin hefur viðurkennt í yfirlýsingu að eftir á að hyggja hefði átt að fara fyrr í land. Þeir sögðust hafa verið í sambandi við sóttvarnalækni á meðan siglingu stóð en skýrðu þau samskipti ekki nánar.

Hákon Blöndal, fyrsti vélstjóri á Júlíusi Geirmundssyni, brást harðorður við yfirlýsingu útgerðarinnar.

„Þetta er ljóta helvítis yfirklórið og drullumokstur. Hérna er ekki öll sagan sögð og menn þurfa að taka sig saman í andlitinu og viðurkenna mistök. við grun um Covid smit um borð ber skipstjóra að hafa samband við landhelgisgæslu Íslands sem ákveður næstu skref. í þessu tilfelli var verkferlum ekki fylgt og áhöfn fékk aldrei að njóta vafans og var lögð í mikla áhættu!“

Gæslan heyrði ekkert

Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri útgerðarinnar, hefur ekki svarað spurningum fjölmiðla um hvers vegna ekki var haldið til hafnar. Þá vildi Sveinn Geir Arnarsson skipstjóri ekki tjá sig við Vísi í vikunni.

„Ég hef ekkert að segja,“ sagði Sveinn Geir.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, staðfesti í samtali við fréttastofu í dag að ekki hefði verið haft samband við Landhelgisgæsluna. Gæslan hafi fengið upplýsingar um að 19 skipverjanna væru smitaðir síðastliðinn mánudag, eftir að skipið var komið til hafnar. Þá hafði skipið verið um það bil þrjár vikur á sjó.

Eftir að skipverjarnir fóru í sýnatöku þótti ekki ástæða til að bíða eftir niðurstöðum heldur var siglt aftur á haf út. Tilgangur stoppsins var olíufylling en bræla var á miðum og því hlé á veiðum.Vísir/vilhelm

Súsanna Björg Ástvaldsdóttir, umdæmislæknir sóttvarna á Vestfjörðum, var í sambandi við skipstjóra meðan á túrnum stóð.

„Ef það er grunur um smitsjúkdóm þá ber að fara eftir einhverjum ákveðnum verkferlum. Þeir hringdu í mig og báru þetta undir mig og mín skilaboð hafa alltaf verið skýr, frá upphafi faraldursins, að ef fólk er með einkenni þá þarf það að koma í sýnatöku og það að eiga samtal við mig um að staðfesta að þetta sé kvef er bara ekki til. Fólk verður að mæta í sýnatöku. Það er enginn munur á covid og kvefi,“ sagði Súsanna í Reykjavík síðdegis í gær.

Tjáningin verðmætari en starfið um borð

Arnar Gunnar háseti segir að ekki tíðkist á sjó að mótmæla orðum skipstjórans. Þannig sé menningin á sjó. Hann segir alvarlegasta brot útgerðarinnar á skipverjum að neyða þá til vinnu í erfiðum veikindum. Hann fer ófögrum orðum um útgerðina.

Heilbrigðisstarfsmenn um borð í Júlíusi Geirmundssyni. Eftir að niðurstöður lágu fyrir úr Covid-19 prófunum, og ljóst að fjölmargir voru sýktir, var ákveðið að snúa aftur til hafnar. Skipverjunum var sagt að hefja tiltekt og ganga frá afla, þótt þeir væru margir hverjir veikir.Vísir/Hafþór

„Hegðun HG í þessum kórónuvírusskandal núna er í nákvæmu samræmi við hegðun fyrirtækisins gagnvart starfsmönnum hvað varðar öryggi og heilsu starfsmanna í fortíðinni,“ sagði Arnar á RÚV. Hann óttast ekki að missa vinnuna.

Tjáning mín á málinu er óendanlega verðmætari en starf mitt þarna um borð.

Ráðgjafafyrirtæki aðstoðar útgerðina

Fólk keppist við að hrósa Arnari Gunnari fyrir hugrekki sitt og frásögn á samfélagsmiðlum í kvöld. Þar á meðal er fyrrverandi bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.

„Þekki þig ekki neitt Arnar en langar til að hrósa þér í hástert fyrir vasklega framgöngu í frétt kvöldsins. Skýr, yfirvegaður og drulluflottur. Það þarf hugrekki til að láta ekki drumbana beygja sig.“

Helgi Seljan fréttamaður RÚV vekur athygli á því á Twitter að skipverjar hafi enn ekki heyrt neitt frá útgerðinni, ef frá eru taldar yfirlýsingar á vef útgerðarinnar. Þeim hafi þó verið tilkynnt í gær að ráðgjafarfyrirtækið Attentus hafi verið fengið til þess að greina stöðuna.

„Markmið vinnunnar er að draga lærdóm og finna leiðir til að efla viðbragð og liðsanda til framtíðar í góðri samvinnu við starfsfólk,“ segir í skilaboðum útgerðarinnar til starfsmanna.


Tengdar fréttir

Bannað að segja fjölmiðlum frá veikindum sínum um borð

Skipverjar á frystiskipinu Júlíusi Geirmundssyni segjast margir hverja hafa verið alvarlega veikir í þriggja vikna túr á miðunum. Þeir hafi verið með mikinn hita, öndunarörðugleika auk fleiri þekktra einkenna Covid-19 sjúkdómsins.

„Þetta er ljóta helvítis yfirklórið og drullumokstur“

Súsanna Björg Ástvaldsdóttir‎, umdæmislæknir sóttvarna á Vestfjörðum, segir tilmæli sín mjög einföld þegar komi að einkennum vegna Covid. Skipti þá engu hvort menn séu á sjó eða í landi. Menn eigi að koma í sýnatöku.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×