Sport

Khabib af­greiddi Gaet­hje og til­kynnti svo að hann væri hættur

Anton Ingi Leifsson skrifar
Khabib í tárum eftir sigurinn í kvöld.
Khabib í tárum eftir sigurinn í kvöld. Josh Hedges/Zuffa LLC/Getty Images

Khabib Nurmagomedov, MMA-bardagakappinn, gerði sér lítið fyrir og skellti enn einum mótherja sínum. Í kvöld var það Bandaríkjamaðurinn Justin Gaethje.

Khabib hafði ekki tapað bardaga fyrir bardagann í kvöld en bardaginn fór fram í Forum Arena á Abu Dhabi. Þetta var fyrsti bardagi Khabib frá því að faðir hans, sem var honum afar náinn, féll frá í júlí.

Það sást frá upphafi að Khabib ætlaði sér að vinna þennan bardaga fyrir föður sinn. Hann gerði sér lítið fyrir og náði að afgreiða Bandaríkjamanninn í annarri lotunni. Stór sigur Rússans.

Hann hefur því unnið alla þrettán bardaga sína í UFC og er samanlagt 29-0 í bardögum innan vefbanda MMA. Stærstu tíðindi kvöldsins komu hins vegar eftir bardagann er Khabib sagði að hann væri hættur að berjast.

„Þetta var minn síðasti bardagi. Það er ekki séns að ég komi hérna án pabba. Þegar UFC spurði mig hvort að ég vildi berjast gegn Justin þá talaði ég við mömmu mína í þrjá daga,“ sagði Khabib.

„Hún vill ekki að ég fari til bardaga án pabba en ég lofaði henni að þetta yrði minn síðasti bardagi. Ég stend við það og ég verð að gera það,“ bætti Rússinn við.

Khabib hefur eldað grátt silfur við Conor McGregor í gegnum tíðina en það verður fróðlegt að sjá hvort að Khabib sé hættur fyrir fullt og allt.

MMAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.