Sport

Katrín Tanja eins og kvikmyndastjarna: Með sitt eigið hjólhýsi á keppnistaðnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir í kvöldsólinni í Kaliforníu.
Katrín Tanja Davíðsdóttir í kvöldsólinni í Kaliforníu. Instagram/@katrintanja

Keppendurnir í ofurúrslitum heimsleikanna fá smá Hollywood meðferð á heimsleikunum en keppnin hefst á morgun.

Katrín Tanja Davíðsdóttir er í hópi fimm kvenna og fimm karla sem keppa um heimsmeistaratitilinn í CrossFit. Þetta er í fyrsta sinn sem slík ofurúrslit ráða úrslitum í baráttunni um sigurinn á heimsleikunum.

Keppnin fer nú fram í Aromas og nágrenni í norður Kaliforníu en CrossFit búgarðurinn er einmitt í Aromas.

Vanalega eru tuttugu til þrjátíu keppendur að keppa á heimsleikunum og í fyrra voru keppendurnir yfir hundrað. Heimsfaraldurinn kallaði hins vegar á breytingar og lausnin til að ná að halda eina lokakeppni á einum stað var að útbúa fámenn úrslit.

Niðurstaðan var því að skipta heimsleikunum í tvennt og búa til sérstök fimm manna ofurúrslit þar sem heimsmeistaratitlarnir verða í boði.

Allir keppendur eru komnir inn í sérstaka CrossFit búbblu og mega ekki yfirgefa hana fyrr en eftir lokagreinina á sunnudaginn kemur.

Instagram/katrintanja

CrossFit samtökin passa upp á að hver og einn keppandi fái sinn stað á keppnisstaðnum. Þangað má enginn koma nema viðkomandi keppandi og eini aðstoðarmaður hans.

Katrín Tanja og CrossFit stjörnurnar eru því eins og kvikmyndastjörnur því hver og einn er með merkt hjólhýsi á keppnisstaðnum.

Við erum náttúrulega að tala um fimm bestu CrossFit karla og CrossFit konur heims og þetta eru stærstu stjörnur sinnar íþróttar í dag. Það er því full ástæða til að þau fái smá stjörnumeðferð á helgi sem þessari.

Katrín Tanja sýndi frá hjólhýsinu í sínum sögum á Instagram í gær. Hér til hliðar má sjá mynd frá hjólhýsinu hennar.

Keppendur hafa verið í búbblunni frá því um helgina og geta eflaust ekki beðið eftir því að fara að keppa. Þau hafa hins vegar allt til alls til að sinna lokaundirbúningi sínum fyrir heimsleikana og þurfa ekki að kvarta. Það er bara biðin sem getur tekið á.

Fyrsta grein heimsleikanna fer fram á morgun klukkan átta um morguninn að staðartíma eða klukkan þrjú eftir hádegi að íslenskum tíma.  Það verður síðan svaka keyrsla á þessum keppendum fram á sunnudagskvöldið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×