Sport

Katrín Tanja nú í CrossFit búbblu með þeim bestu í heimi: Mjög strangar reglur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir á flugvellinum í Boston á leiðinni til Kaliforníu.
Katrín Tanja Davíðsdóttir á flugvellinum í Boston á leiðinni til Kaliforníu. Instagram/@katrintanja

CrossFit samtökin halda ofurúrslit heimsleikanna í þessari viku og keppendurnir mættu á svæðið um helgina. Þar á meðal var íslenska CrossFit drottningin Katrín Tanja Davíðsdóttir.

Kórónuveiran hefur auðvitað sett mikinn svip á heimsleikana í ár og þess vegna fara fram sérstök ofurúrslit þar sem fimm bestu karlarnir og fimm bestu konurnar keppa um báða heimsmeistaratitlana.

Fyrri hluti úrslitanna fór fram í gegnum netið þar sem hver og keppandi gerði æfingarnar í sínum æfingasal. Nú hittast hins vegar keppendurnir í Aromas í Norður-Kaliforníu.

Til að geta haldið slíka keppni í miðjum heimsfaraldri þá þurftu CrossFit samtökin að búa til búbblu hjá sér eins og gert var í NBA-deildinni í körfubolta sem og nokkrum öðrum bandarískum atvinnumannadeildum. Það eru því mjög strangar reglur í gildi þessa einu viku sem ofurúrslitin fara fram.

Katrín Tanja Davíðsdóttir og hin níu sem keppa um heimsmeistaratitlana þurfa að fylgja nákvæmlega öllum þeim sóttvarnarreglum sem hafa verið settar í Aromas. Eftir að þau fara inn í CrossFit búbbluna verður ekki aftur snúið fyrir þau fyrr en keppninni er lokið á sunnudaginn.

Keppendur þurftu að fara í kórónuveirupróf áður en þeir lögðu af stað og sýndu síðan niðurstöður um neikvæða mælingu þegar þau mættu á svæðið.

Um leið og þau komu til Aromas í Norður-Kaliforníu þá þurftu þau að fara í aðra skimun. Eftir hana þurftu keppendur og aðstoðarmaður þeirra að halda kyrru fyrir í hótelherberginu þar til að þau fengu neikvæða niðurstöðu úr því prófi.

Hver og einn keppandi má hafa með sér einn aðstoðarmann sem þarf að ganga í gegnum sömu sóttvarnir og sóttkví og þeir.

Alla þessa viku mega keppendur ekki yfirgefa hótelið sitt nema til að sækja viðurkennda viðburði á vegum heimsleikanna. CrossFit mun sjá um það að keyra keppendur þangað sem þeir þurfa að mæta. Enginn þeirra má fara neitt á eigin vegum.

Keppendur verða að taka allt sem þeir þurfa með sér inn á hótelherbergið áður en þeir fara í próf númer tvö. Eftir það mega þeir ekki fara út fyrir búbbluna til að ná sér í eitthvað matarkyns eða annað. Þeir mega fá sendingar utan frá en mega ekki sækja þær nema á ákveðna staði sem CrossFit hefur útbúið fyrir slíkt.

Keppnin hefst samt ekki fyrr en á föstudaginn og því þurfa Katrín Tanja og hin níu að lifa þessu sérstaka lífi í búbblunni fram að því. Þau fá væntanlega tækifæri til að æfa og halda undirbúningi sínum áfram en það mun örugglega reyna á andlegu hliðina að mega ekki fara neitt út fyrir búbbluna.

NBA búbblan gekk upp í Disneygarðinum og sömuleiðis gekk vel hjá bæði WNBA deildinni og NHL deildinni. CrossFit samtökin ætla að sjá til þess að allt gangi vel hjá þeim líka.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×