Sport

Mældu hjartslátt Katrínar Tönju í handstöðuæfingunni sem hún rústaði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir í handstöðuæfingunni á heimsleikunum þar sem hún hafi mikla yfirburði.
Katrín Tanja Davíðsdóttir í handstöðuæfingunni á heimsleikunum þar sem hún hafi mikla yfirburði. Instagram/@katrintanja

Katrín Tanja Davíðsdóttir átti svakalega endurkomu í baráttunni um sæti meðal fimm bestu CrossFit kvenna heims og frammistaða hennar í næstsíðustu greininni vakti gríðarlega athygli enda vann hún þar yfirburðasigur.

Katrín Tanja keppir um heimsmeistaratitilinn í CrossFit um þar næstu helgi og fólk er víða farið að telja niður í þessi óvenjulega fámennu lokaúrslit þar sem aðeins fimm karlar og fimm konur keppa um heimsmeistaratitilinn.

Katrín Tanja er ekki aðeins eini fulltrúi Íslands í baráttunni heimsmeistaratitlana því hún er líka eini fulltrúi Evrópu í ofurúrslitunum.

Katrín Tanja Davíðsdóttir sýndi styrk sinn og seiglu á lokadeginum í fyrri hluta heimsleikanna en hún kom sér aftur inn í baráttuna um efstu fimm sætin með því að vinna tvær greinar í röð.

Það var vissulega frábært sjá Katrínu Tönju vinna Nasty Nancy æfinguna, sem var fyrsta grein sunnudagsins, en hún sló virkilega í gegn í næstsíðustu æfingunni sem var handstaðan.

Instagram

Katrín Tanja notaði mjög sérstaka og tignarlega aðferð til að ná betra jafnvægi í æfingunni og henni tókst á endanum að standa á höndum í tvær mínútur og 54 sekúndur. Það var sem dæmi meira en tvöfalt lengur en heimsmeistarinn Tia-Clair Toomey náði.

Það má segja að Katrín Tanja hafi rústað þessari æfingu þrátt fyrir að keppa við þrjátíu bestu CrossFit konur heims. Hún vann hana á endanum með 41 sekúndna mun því önnur var Kari Pearce á 2 mínútum og 13 sekúndum.

Katrín Tanja vakti athygli á athyglisverðu myndbandi frá Whoop á Instagram þar sem þeir sýndu þessu eftirminnilegu æfingu Katrínar Tönju þar sem mátti sjá hjartsláttinn hjá henni á meðan hún var að gera æfinguna. Það má sjá þetta myndband hér fyrir ofan.

„Skemmtilegt að sjá hjartsláttinn minn í æfingunni,“ skrifaði Katrín Tanja og deildi myndbandinu á Instagram síðunni sinni. Hún var með Whoop armband á sér í æfingunni og gat um leið nálgast upplýsingar um líkamann sinn í miðri æfingu.

Hér fyrir neðan má síðan sjá myndband með allri æfingunni sem CrossFit samtökin deildu á Youtube-síðu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×