Erlent

Neyðar­á­stand í Kirgistan og fyrr­verandi for­setinn hand­tekinn

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Almazbek Atambayev, fyrrverandi forseti Kirgistans, heilsar stuðningsmönnum sínum eftir að hann var leystur úr haldi. Hann hefur nú aftur verið handtekinn.
Almazbek Atambayev, fyrrverandi forseti Kirgistans, heilsar stuðningsmönnum sínum eftir að hann var leystur úr haldi. Hann hefur nú aftur verið handtekinn. AP Photo/Vladimir Voronin

Almazbek Atambayev, fyrrverandi forseti Kirgistans, hefur verið handtekinn af öryggissveitum landsins. Mikil ólga hefur verið í landinu undanfarna daga vegna umdeildra þingkosninga sem fóru þar fram síðastliðinn sunnudag.

Atambayev slapp úr fangelsi með hjálp stuðningsmanna sinna fyrir aðeins nokkrum dögum síðan en hefur nú verið handtekinn á ný. Stuðningsmenn hans hafa harðlega gagnrýnt niðurstöður þingkosninganna sem fóru fram síðastliðinn sunnudag og hefur stjórnálaástandi í landinu verið lýst sem neyðarástandi.

Kirgiska þingið skipaði í dag, laugardag, þjóðernissinnaða stjórnálamanninn Sadyr Zhaparov sem nýjan forsætiráðherra landsins eftir að forveri hans sagði af sér. Zhaparov er meðal nokkurra nafntogaðra stjórnmálamanna sem var sleppt úr haldi í vikunni í kjölfar mikilla mótmæla í landinu. Hann sat í fangelsi fyrir að hafa frelsissvipt opinberan starfsmann árið 2013.

Til átaka hefur komið milli mótmælenda og lögreglu í Kirgistan.AP Photo/Vladimir Voronin

Mótmæli hófust í landinu eftir að mótmælendur flykktust út á götur í Bishkek, höfuðborg landsins, og brutust inn í opinberar byggingar á þriðjudag. Mótmælendur krefjast þess að Sooronbay Jeenbekov, forseti landsins sem er stuðningsmaður Rússa, segi af sér.

Jeenbekov hefur lýst því yfir að hann muni segja af sér þegar ný ríkisstjórn hefur verið mynduð og lögum og reglum er framfylgt. Þangað til, hefur forsetinn lýsti yfir neyðarástandi og er það rakið til þess að átök brutust út á milli mótmælenda og lögreglu á föstudag. Meira en 1.200 hafa særst í mótmælunum og minnst einn látist.

Kirgiskur hermaður við eftirlitsstöð utan við Bishkek, höfuðborg landsins.AP Photo/Vladimir Voronin

Eftirlitsstöðvum á vegum hersins hefur verið komið upp í kring um höfuðborgina og hafa vopnaðar herbifreiðar sést á ferð um höfuðborgina. Útgöngubanni hefur einnig verið komið á og eru takmarkanir í gildi á því hverjir mega ferðast til og frá höfuðborginni.

Þá hefur forsetinn rekið ýmsa hátt setta menn innan hersins sem annað hvort eru stuðningsmenn andstæðinga hans eða brugðust ekki við þegar stjórnarandstaðan tilkynnti á þriðjudag að hún hygðist ræna völdum. Eftirlitsstöðvum á vegum hersins hefur verið komið upp í kring um höfuðborgina og hafa vopnaðar herbifreiðar sést á ferð um höfuðborgina.


Tengdar fréttir

Mót­mælendur í Kirgistan ruddust inn í þing­hús landsins

Mótmælendur í höfuðborg Kirgistans, Bishkek, réðust í morgun inn í þinghús landsins. Fólkið var að mótmæla nýyfirstöðnum þingkosningum í landinu og krefjast þess að þær yrðu lýstar ógildar en margir hafa sakað ráðandi öfl í landinu um kosningasvindl.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×